Fella landvistarleyfi stúdenta úr gildi

Harvard-háskóli mun einungis bjóða upp á fjarnám á komandi haustönn.
Harvard-háskóli mun einungis bjóða upp á fjarnám á komandi haustönn. AFP

Bandarísk yfirvöld tilkynntu í dag að landvistarleyfi erlendra stúdenta sem stunda nám þar í landi verði felld úr gildi ef allir áfangar sem þeir eru skráðir í verða kenndir í fjarnámi í haust vegna kórónuveirufaraldursins.

Ákvörðunin gildir um stúdenta sem eru í flokkunum F-1 og M-1, og nær yfir þá sem eru með tímabundið landvistarleyfi í Bandaríkjunum.

„F-1- og M-1-stúdentar sem eru í skólum þar sem námi hefur verið breytt alfarið í fjarnám mega ekki dvelja áfram í Bandaríkjunum,“ sagði í yfirlýsingu frá stofnuninni ICE sem fer með mál innflytjenda (US Immigration and Custom Enforcement).

Þeir stúdentar „verða að yfirgefa landið eða grípa til annarra ráðstafana. Ef þeir gera það ekki þurfa þeir mögulega að takast á við afleiðingarnar“, sagði í yfirlýsingunni.

Flestir framhalds- og háskólar í Bandaríkjunum eiga enn eftir að gefa það út hvernig námi verður háttað þegar haustönn hefst. Vitað er þó að margir skólar ætla að kenna áfanga, sem hingað til hafa verið kenndir á hefðbundinn hátt, í fjarnámi. Sumir skólar, til að mynda Harvardháskóli, ætla einungis að bjóða upp á fjarnám.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert