Fimm eru í haldi frönsku lögreglunnar grunuð um aðild að fólskulegri árás á strætóbílstjóra, sem hefur verið úrskurðaður heiladauður. Ástæðan fyrir árásinni er sú að strætóbílstjórinn meinaði manni aðgang vegna þess að hann var ekki með andlitsgrímu.
Árásin átti sér stað í bænum Bayonne í suðvesturhluta Frakklands í gær. Heimildamaður AFP-fréttaveitunnar innan lögreglunnar segir að bílstjórinn, sem er á sextugsaldri, hafi reynt að koma í veg fyrir að maður, sem ekki var með andlitsgrímu, kæmist inn í strætisvagninn.
Bílstjórinn bað einnig fjóra aðra einstaklinga, sem voru heldur ekki með andlitsgrímu, að yfirgefa strætisvagninn. Var hann með því að framfylgja reglum sem settar hafa verið til að sporna gegn frekari útbreiðslu kórónuveirunnar. Það er skylda að vera með andlitsgrímu um borð í almenningssamgöngumátum í Frakklandi.
Bílstjórinn er sagður hafa verið kýldur ítrekað í höfuðið í árásinni. Hann var meðvitundarlaus þegar farið var með hann á sjúkrahús og í dag var hann úrskurðaður heiladauður af læknum.
Maður á fertugsaldri var handtekinn í gær vegna málsins og fjórir aðrir handteknir í dag, sagði í yfirlýsingu frá saksóknara.