Bók Mary Trump, frænku Donald Trump Bandaríkjaforseta, um sögu Trump-fjölskyldunnar verður gefin út þriðjudaginn 14. júlí, eftir að dómari aflétti tímabundnu banni sem sett hafði verið á útgáfu bókarinnar. Í bókinni er forsetinn sagður „hættulegasti maður í heimi“.
Til stóð að bókin, Of mikið og aldrei nóg: Hvernig fjölskylda mín skapaði hættulegasta mann í heimi, (e. Too Much and Never Enough, How My Family Created the World's Most Dangerous Man) kæmi út 28. júlí en þau áform breyttust eftir að lögbann var sett á útgáfu bókarinnar.
Nú hefur lögbanninu verið aflétt og hefur útgefandinn Simon & Schuster ákveðið að flýta útgáfunni samkvæmt því sem fram kemur á vefsíðu Simon & Schuster.
Mary Trump, höfundur bókarinnar, er dóttir eldri bróður forsetans, Freds Trumps jr., sem lést árið 1981. Í bókinni rifjar Mary upp æsku sína og uppeldi af hálfu „eitraðrar fjölskyldu“ á heimili ömmu hennar og afa.