12 ár fyrir að myrða son fyrrverandi forseta

Gregor S verður á geðdeild næstu 12 árin.
Gregor S verður á geðdeild næstu 12 árin. Ljósmynd/Twitter

Þýskur maður að nafni Gregor S var dæmdur til 12 ára vistunar á geðdeild fyrir að myrða Dr. Fritz von Weizsäcker, sem var sonur Richard von Weizsäcker fyrrverandi forseta Þýskalands. Fritz var hafði nýlokið við að flytja fyrirlestur á sjúkrahúsi í Berlín þegar hann var stunginn til bana.

Dómarar litu svo á að Gregor S hefði borið „takmarkaða ábyrgð“ á morðinu vegna geðrænna vandamála og var litið til þess við ákvörðun refsingar. Morðið vakti mikinn óhug í Þýskalandi í nóvember á síðasta ári. BBC greinir frá. 

„Hafði ekki einu sinni tíma til að bera fyrir sig hendur“

Faðir Fritz, Richard von Weizsäcker, var borg­ar­stjóri Berlín­ar áður en hann varð for­seti Vestur-Þýska­lands árið 1984. Hann gegndi þeirri stöðu næstu árin og kom meðal annars að sameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands. Hann varð síðan fyrsti forseti hins sameinaða Þýskalands árið 1990 og lét af störfum árið 1994.

Í dómsskjölum kemur fram að Gregor hafi stungið Fritz í hálsinn með þeim afleiðingum að 14 sentímetra skurður opnaðist. „Fritz von Weizsäcker hafði ekki einu sinni tíma til að bera fyrir sig hendur,“ sagði Silke van Sweringen saksóknari fyrir dómi.

Gregor var einnig fundinn sekur um tilraun til manndráps fyrir að hafa stungið lögregluþjón, sem varð vitni af árásinni á Fritz og reyndi að yfirbuga Gregor, nokkrum sinnum.

Dr. Fritz von Weizsäcker er annar frá vinstri.
Dr. Fritz von Weizsäcker er annar frá vinstri. Ljósmynd/BBC

Framdi morðið vegna pólitískrar sannfæringar

Sérfræðingar sem komu fyrir dóminn sögðu Gregor vera haldinn persónuleikaröskun og áráttu- og þráhyggjuröskun og það hafi gert það að verkum að hann réði illa við gjörðir sínar. Þeir tóku fram að hann væri ennþá hættulegur umhverfi sínu og að hann neitaði að þiggja meðferð.

Lög í Þýskalandi kveða á um að sá sem gerist sekur um morð skuli vera dæmdur í lífstíðarfangelsi en vegna þeirrar takmörkuðu ábyrgðar sem Gregor var talinn bera verður hann einungis vistaður á geðdeild í 12 ár.

Sjálfur sagði Gregor að geðræn vandamál hans hefðu ekkert haft með morðið að gera. Hann hefði ráðið Fritz von Weizsäcker af dögum vegna þess að hann Fritz sat í stjórn fyrirtækis sem framleiddi efnið Agent Orange, sem notað var af Bandaríkjamönnum í Víetnam-stríðinu með skelfilegum afleiðingum.

„Ég framdi morðið vegna pólitískrar sannfæringar minnar, ekki vegna ranghugmynda,“ sagði hann fyrir dómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert