Fara með Rússa fyrir MDE

AFP

Hollensk yfirvöld ætla að óska eftir því að dómarar við Mannréttindadómstól Evrópu fjalli um hlut rússneskra yfirvalda þegar farþegaþota Malaysia Airlines, flug MH17 var skotin niður yfir Úkraínu árið 2014. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá utanríkisráðherra Hollands, Stef Blok. 

„Sækjumst eftir réttlæti yfir 298 fórnarlömbum þess þegar flug MH17 var skotið niður. Þetta er og mun vera helsta hagsmunamál þessarar ríkisstjórnar,“ segir í yfirlýsingu Blok. 

DIMITAR DILKOFF

Fjórir menn hafa verið ákærðir  manndráp vegna árásar á farþegaþotu Malaysian Airlines, MH17, sem var skotin niður yfir Úkraínu í júlí 2014. 298 manns létu lífið þegar þotan hrapaði.

Rannsóknarnefnd undir forystu Hollendinga ákærði þrjá rússneska ríkisborgara – Ígor Gírkín, Sergej Dúbínskí og Oleg Púlatov – og Úkraínumanninn Leoníd Khartsjenkó. Réttarhöldin yfir mönnunum hófust í Hollandi 9. mars.

Stjórnvöld í Moskvu neituðu því að Rússar væru viðriðnir árásina og Gírkín heldur því fram að ekkert væri hæft í því að uppreisnarmenn í austurhéruðum Úkraínu hefðu grandað farþegaþotunni. Uppreisnarmennirnir hafa notið stuðnings Rússa.

Rannsóknarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að BUK-flugskeyti, sem skotið var á þotuna, hefði áður verið flutt frá herstöð í borginni Kúrsk í Rússlandi.

Saksóknarar segja að Gírkín sé fyrrverandi foringi í rússnesku öryggislögreglunni FSB. Hann var titlaður varnarmálaráðherra í „Alþýðulýðveldinu Donetsk“ í Austur-Úkraínu. Dubínskí var áður í leyniþjónustu rússneska hersins, GRU, Púlatov er fyrrverandi liðsmaður rússneskrar sérsveitar og Khartsjenkó fór fyrir vopnaðri sveit uppreisnarmanna í Austur-Úkraínu.

Þotan var á leiðinni frá Amsterdam til Kúala Lúmpúr þegar hún var skotin niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka