Aldarfjórðungur er liðinn síðan hersveitir Serba drápu yfir átta þúsund múslíma, karla og drengi, í bænum Srebrenica í Bosníu og Hersegóvínu. Fjöldamorðin eru þau verstu í Evrópu síðan í helförinni. Líkt og undanfarin ár minntust margir hryllingsstundarinnar fyrir 25 árum en kórónuveirufaraldurinn kemur í veg fyrir að jafn margir geti tekið þátt líkt og oft áður þann 11. júlí.
Í morgun voru líkamsleifar níu fórnarlamba lögð til hinstu hvíldar í kirkjugarðinum í Potocari en það var ekki fyrr en á þessu ári sem það tókst að bera kennsl á þær. Þorpið Potocari var bækistöð friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna en Sameinuðu þjóðirnar höfðu sagt Srebrenica öruggt svæði fyrir almenna borgara í stríðinu.
Það stöðvaði ekki Serba frá því að ráðast inn í bæinn sem þeir höfðu setið um í mörg ár. Herinn réðst inn í bæinn 11. júlí 1995 og flykktust flestir múslimar bæjarins til bækistöðva Sameinuðu þjóðanna skammt frá í von um að hollenskir friðargæsluliðar myndu vernda þá.
Friðargæsluliðarnir voru hins vegar undirmannaðir og yfirbugaðir af hernum og gátu lítið sem ekkert gert þegar hermennirnir tóku karla og drengi af lífi en fluttu konurnar og stúlkurnar í burtu. Næstum því 15.000 íbúar Srebrenica reyndu að flýja hermennina í gegnum skóglendið en rúmlega 8.000 voru drepnir.
Alþjóðadómstólar hafa flokkað atburðina sem þjóðarmorð þar sem fleiri en 8.000 létu lífið og er það hið opinbera mat að markmið morðanna hafi verið að útrýma múslimum á svæðinu.
Sehad Hasanovic, er 27 ára gamall og á tveggja ára gamla dóttur. Hún er jafn gömul og hann var þegar faðir hans var tekinn af lífi. „Það er erfitt að verða vitni að því þegar einhver kallar pabbi og þú átt engan,“ segir Hasanovic. Faðir hans, Semso, flúði inn í skóginn við bæinn en hann sneri ekki aftur. Aðeins hluti líkamsleifa hans hafa fundist.
Semso var drepinn af hermönnum Bosníu-Serba undir stjórn Ratko Mladic. Bróðir hans, Sefik og faðir þeirra, Sevko, voru einnig drepnir.
„Eiginmenn fjögurra systra minna voru drepnir,“ segir Ifeta Hasanovic, 48 ára, en líkamsleifar eiginmanns hennar, Hasib, voru meðal þeirra sem jarðsettar voru í dag.
„Bróðir minn var drepinn og einnig sonur hans. Tengdamóðir mín missti einnig annan son sem og eiginmann sinn.“
Stríðið milli Bosníu Króata, múslíma og Serba stóð yfir í þrjú ár, 1992-1995, og er talið að það hafi kostað 100 þúsund mannslíf. Enn hafa aðeins fundist líkamsleifar tæplega 6.900 fórnarlamba fjöldamorðanna í Srebrenica og fundust þau í yfir 80 fjöldagröfum.
Enn líta margir Serbar á Ratko Mladic sem þjóðhetju en hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir alþjóða glæpadómstólnum í Haag árið 2017. Hann áfrýjaði dómnum en niðurstaða áfrýjunardómstóls liggur ekki fyrir. Hann var dæmdur sekur um stríðsglæpi, þar á meðal þjóðarmorðin í Srebrenica.
Radovan Karadžić, fyrrverandi leiðtogi Bosníu-Serba, hlaut lífstíðardóm þjóðarmorð og stríðsglæpi árið 2017. Hann hlaut 40 ára dóm árið 2016, en kaus að áfrýja þeim dómi.