Þúsundir tóku þátt í mótmælum í Frakklandi í gær en fólkið krefst þess að innanríkisráðherra landsins segi af sér. Ráðherrann, Gérald Darmanin, er til rannsóknar í nauðgunarmáli en hann neitar sök.
Mótmælendur komu saman í París, Bordeaux, Lyon, Toulouse og fleiri borgum. Gengu þeir með spjöld með áletrunum eins og: „Nauðgunarmenning - á hreyfingu!“ (la culture du viol En Marche) en þar vísa þeir í slagorð stjórnmálaflokks forseta Frakklands, Emmanuel Macron, La République En Marche (LREM).
Jafnframt mótmælti fólkið skipan Eric Dupond-Moretti í embætti dómsmálaráðherra en hann er þekktur lögmaður fræga fólksins og hefur ekki farið leynt með gagnrýni sína á #MeToo hreyfingunni.
Anouck Lagarrige, sem er 22 ára, tók þátt í mótmælunum í Toulouse en hún segir í samtali við AFP-fréttastofuna að hún hafi farið að gráta þegar hún frétti af þessum tilnefningum. „Ég grét því ég er sjálf þolandi nauðgunar. Fyrir mig og alla aðra þolendur er þetta móðgun.“
Darmanin var skipaður í embætti þrátt fyrir að vera að kona hafi lagt fram kæru á hendur honum. Sakar hún Darmanin um að hafa nauðgað sér þegar hún leitaði eftir aðstoð hans um að fá sakaferl afmáðan (uppreist æru).
Darmanin segir ekkert hæft í ásökunum konunnar og fallið var frá málinu árið 2018. En fyrr á þessu ári fyrirskipaði áfrýjunardómstóll að málið yrði tekið upp að nýju og rannsakað.