Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, mildaði refsingu yfir fyrrverandi ráðgjafa sínum og vini, Roger Stone, í gær. „Roger Stone er nú frjáls maður!“ segir í tilkynningu frá forsetaembættinu. Stone átti að hefja afplánun 40 mánaða fangelsisdóms innan nokkurra daga.
Stone var í nóvember í fyrra fundinn sekur um að hindra framgang réttvísinnar og um falskar yfirlýsingar varðandi vitnisburð hans fyrir Bandaríkjaþingi vegna tölvupósta Demókrataflokksins sem stolið var árið 2016.
Í yfirlýsingu sem lögmaður Stone, Grant Smith, sendi á fjölmiðla í gærkvöldi kemur fram að skjólstæðingur hans er gríðarlega upp með sér að forseti landsins hafi nýtt sér einstakar og um leið frábærar valdheimildir, sem byggi á stjórnarskrá landsins, til þess að milda refsinguna.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ríkisstjórn Bandaríkjanna kemur Stone til aðstoðar því eftir að saksóknari fór fram á að Stone yrði dæmdur í 7-9 ára fangelsi greip Bill Barr dómsmálaráðherra, sem hefur verið sakaður um að hegða sér eins og persónulegur lögfræðingur Trump, og sagði það allt of langur dómur, að því er segir í frétt AFP-fréttastofunnar.
Stone er sjötti aðstoðarmaður Trump sem er dæmdur fyrir misnotkun valds í tengslum við rannsókn Robert Mueller, sérstaks saksóknara á afskiptum Rússa að bandarísku forsetakosningunum 2016.