Daginn eftir var hún látin

Romina Ashrafi var 14 ára þegar pabbi hennar drap hana …
Romina Ashrafi var 14 ára þegar pabbi hennar drap hana í svefni. Skjáskot af Twitter

Áður en Reza Ashrafi hjó höfuðið af fjórtán ára gamalli dóttur sinni með kornljá hringdi hann í lögfræðing sem fullvissaði hann um að refsingin yrði aldrei dauðadómur heldur nokkurra ára fangelsisdómur. 

Ástæðan fyrir því að Ashrafi drap dóttur sína er að hún ætlaði að vanvirða fjölskylduna með því að strjúka að heiman með 29 ára gömlum manni. Hvaða refsingu fæ ég fyrir að drepa hana? spurði Ashrafi lögmanninn að sögn ættingja hans í viðtali við íranskt dagblað í lok maí. Þremur vikum eftir samtalið við lögmanninn æddi Ashrafi, sem er 37 ára gamall bóndi, inn í svefnherbergi stúlkunnar, Romina Ashrafi, þar sem hún svaf og afhöfðaði hana. 

Sæmdarmorð eru yfirleitt ekki framin fyrir opnum tjöldum og tiltölulega lítið er fjallað um þau þrátt fyrir að þúsundir kvenna og stúlkna séu drepnar á hverju ári í heiminum í nafni sæmdar segir Nazanin Askari Balsa. 

Nazanin, sem kom til Íslands sem pólitískur flóttamaður frá Íran árið 2012 og fékk hér dvalarleyfi, er í dag búsett í Kaliforníu þar sem hún hefur fylgst grannt með mótmælum vegna morðsins á George Floyd sem var drep­inn af lög­reglu í Minnesota í lok maí. Á svipuðum tíma og Romina var tekin af lífi á heimili sínu í Íran. 

Nazanin Askari Balsa.
Nazanin Askari Balsa. Ljósmynd úr einkasafni

Hún segist velta fyrir sér hvernig staðan væri ef allir töluðu sama tungumál í heiminum og gætu fylgst með fréttum frá öllum heimshornum.

„Ég velti því fyrir mér hvernig það væri ef vinir mínir sem eru femínistar og aðgerðarsinnar gætu séð og skilið fréttirnar sem berast frá Íran, landinu þar sem ég fæddist og ólst upp, undanfarnar vikur,“ segir Nazanin og vísar þar til mótmæla víða um heim í kjölfar morðsins á Floyd þar sem kynþáttamisrétti er mótmælt. 

Nazanin segir að með tækninni eigi ekki að vera erfitt að koma upplýsingum á framfæri enda öll íbúar sama heimsþorpinu. Við eigum að nýta tæknina betur í að bæta samskipti og upplýsingaflæði milli landa. Vestræn ríki hafa alltaf haft áhuga á þriðja heims löndum og nú er orðið tímabært að hlusta á þarlent fólk sem er ekki á mála stjórnvalda í viðkomandi ríkjum — almenning, segir hún.

Ekki tala um heppni íslenskra kvenna 

„Konur í Íran þjást og þær þurfa á lögum að halda sem vernda þær. Reynslan af stafrænum herferðum sýna okkur að hægt er að vekja heiminn til umhusunar með aðstoð íranskra femínista og aðgerðarsinna. Vonandi verður það til þess að hlutirnir breytist. En til þess þarf að upplýsa fólk og ekki síst konur um stöðu annarra kvenna í heiminum. Kvenna sem eru réttlausar og eru þolendur heimilisofbeldis og sæmdarglæpa,“ segir Nazanin. 

Hún segir að með slíkri samvinnu muni að lokum takast að fá stjórnvöld í Íran til að breyta lögum og veita konum sjálfstæðan rétt í samfélaginu. Í dag eru konur álitnar annars flokks og jafnvel þriðja flokks þegnar í Íran og jafnrétti kynjanna er ekkert segir hún.

Frá Teheran í júní.
Frá Teheran í júní. AFP

„Konur geta ekki farið fram á skilnað samkvæmt lögum og þær hafa ekki rétt á forræði yfir börnum sínum ef eiginmaðurinn skilur við þær. Ég hef ekki áhuga á að heyra enn einu sinni hvað við erum heppin á Íslandi heldur vil ég heyra: Hvað get ég gert fyrir konu í Íran sem er ekki jafn heppin og ég?“ segir Nazanin.

Sameinuðu þjóðirnar telja að á hverju ári séu fimm þúsund konur í heiminum fórnarlömb svokallaðra sæmdarmorða, það er þær séu myrtar af fjölskyldum sínum. Mannréttindasamtök telja að talan sé mun hærri og tekur Nazanin undir það. Nær sé að reikna með að sæmdarmorðin séu um 20 þúsund talsins ár hvert. 

Navi Pillay.
Navi Pillay. AFP

Þegar konur eru gerðar að holdgervingi sæmdar fjölskyldunnar, eiga þær talsvert á hættu. Karlkyns ættingjar beita ofbeldi, valda limlestingum og fremja jafnvel morð í nafni sæmdar, oft með þegjandi samþykki eða jafnvel virkri þátttöku kvenkyns ættingja segir í grein sem Navi Pillay, mann­rétt­inda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, skrifaði fyrir 10 árum síðan.

„Slíkar árásir eru framdar í því skyni „að laga og hreinsa“ brot gegn staðlaðri hegðun fjölskyldu eða samfélags, ekki síst þegar kynferðismál eru annars vegar. Kveikjan getur einnig verið vilji konu til að giftast eða lifa með manneskju að hennar eigin vali, skilja eða krefjast arfs. Stundum láta sjálfskipaðir verndarar svokallaðrar sæmdar, til skarar skríða á grundvelli slúðurs eða óstaðfestra grunsemda. Ímynduð sekt er enn þyngri á metunum en raunverulegar athafnir. Konur eru oft dæmdar til ofbeldisfullra refsinga án þess að fá að skýra sína hlið málsins og án nokkurra möguleika á áfrýjun.

Íranskar konur í lestarvagni sem aðeins er ætlaður konum í …
Íranskar konur í lestarvagni sem aðeins er ætlaður konum í höfuðborg Íran í síðasta mánuði. AFP

Slíkri skrumskældri  röksemdafærslu og ofbeldinu sem henni fylgir er meira að segja beitt þegar konur hljóta óumbeðna athygli karla eða eru fórnarlömb nauðgunar eða þvingaðar til sifjaspella. Oft og tíðum geta ofbeldismennirnir treyst á að sleppa undan refsingu vegna linkindar laganna eða ófullkominnar framkvæmd þeirra. Stundum baða þeir sig í aðdáunarljóma ættarinnar fyrir að hafa bundið enda á óviðeigandi framkomu óhlýðinnar konu og þurrkað burt smánarblett með blóði.

Slík ofbeldisverk eru glæpir sem brjóta í bága við réttinn til lífs, frelsis, yfirráða yfir eigin líkama, bann við pyntingum eða grimmilegri, ómannúðlegri, niðurlægjandi meðferð. Þetta eru glæpir sem eru framdir í trássi við bann við þrælahaldi, réttinn til frelsis frá kynbundinni mismunun og kynferðislegum misþyrmingum eða misnotkun, réttinn til einkalífs, skyldunni til að afnema mismunun í lagasetningu og hvers kyns skaðlegu athæfi gegn konum. 

Það er bæði einföldun og misvísandi að halda að slíkir verknaðir tilheyri eingöngu gamaldags menningu sem eigi ekkert skylt við siðfágaða hegðun. Staðreyndin er sú að konur í öllum löndum stríða við ofbeldi þar sem síst skyldi og þar sem þær ættu að geta talið sig öruggar fyrir árásum. Sæmdarárásir eiga sér sömu rætur og heimilisofbeldi. Þessar árásir eiga rætur að rekja til viljans til að stjórna konum, sniðganga óskir þeirra og kæfa rödd þeirra,“ segir Pillay.

AFP

Líkt og ítrekað hefur komið fram er það bábilja að halda því fram að slík morð tengist trúarbrögðum enda finnast sæmdarmorð í ólíkum trúarbrögðum og menningu. 

Verndarráðið svonefnda í Íran, sem er 12 manna stjórnskipunarráð skipað afar íhaldssömum körlum, sem meðal annars velur og hafnar hverjir megi bjóða sig fram til þings og forseta, neitar því að drápið á Romina megi rekja til vanrækslu ráðsins vegna þeirra tafa sem orðið hafa á að það staðfesti lög sem ætlað er að vernda börn. 

Drápið á Romina vakti gríðarlega reiði meðal almennings í Íran og ekki síst fyrir þær sakir að faðir stúlkunnar hefði væntanlega fengið aðrar ráðleggingar frá lögmanninum ef verndarráðið hefði verið búið að staðfesta nýju lögin. Ráðið hafði í þrígang látið breyta frumvarpi laganna eftir að það hafði verið samþykkt á íranska þinginu. 

Forseti Íran, Hassan Rouhani.
Forseti Íran, Hassan Rouhani. AFP

Sér engin tengsl

Talsmaður ráðsins, Abbas Ali Kadkhodaee, segist ekki sjá að um vanrækslu af hálfu ráðsins sé að ræða. „Og ég sé ekki nokkur tengsl milli frumvarpsins og þeirrar staðreyndar að þessi viðurstyggilegi glæpur var framinn,“ segir hann. 

Samkvæmt fréttum íranskra fjölmiðla fór Romina Ashrafi að heiman þegar faðir hennar neitaði henni um að ganga í hjónaband með manninum en í Íran er stúlkum heimilt samkvæmt lögum að ganga í hjónaband 13 ára. 

Kadkhodaee segir að ráðið hafi ekki verið sátt við orðalag í frumvarpinu og að ef þingið hafi viljað hefði verið hægt að kalla það saman til að ræða þessar breytingar. „Ein lög geta aftur á móti ekki leyst slíkan vanda og glæp eins og sæmdarmorð sem hefur menningar-, samfélags- og jafnvel efnahagslegar skírskotanir,“ segir hann. 

Íranskir fjölmiðlar hafa greint frá því að lögreglan hafi handtekið stúlkuna að beiðni föður hennar og hún sagt við dómara að hún óttaðist um líf sitt ef hún yrði send heim. 

AFP

Keypti ís og beltið beið hennar

Morðið á Romina hefur hleypt af stað umræðu kvenna á samfélagsmiðlum í Íran þar sem þær deila sögum af misnotkun og ofbeldi af hálfu karlmanna sem þeim tengjast. Má þar nefna Minoo, 49 ára tveggja barna móður í Teheran. Hún segir að eiginmaður hennar hafi barið 17 ára dóttur þeirra þegar hann sá hana með strák sem er vinur hennar úti á götu.

Hanieh Rajabi, sem er doktorsnemi í heimspeki, skrifar á Twitter að faðir hennar hafi slegið hana með belti og lokað hana inni í viku fyrir að hafa gengið heim úr skólanum til að kaupa sér ís í leiðinni í stað þess að fara með skólabílnum. Aðrar deila sögum af nauðgunum, líkamlegu og andlegu ofbeldi og hvernig þær hafa flúið að heiman í leit að öryggi, segir í frétt New York Times

Fimm sæmdarmorð á nokkrum vikum

AFP

„Sem írönsk-íslensk manneskja kemst ég ekki hjá því að sjá fréttir frá landinu sem ég kem frá, Íran, á samfélagsmiðlum á hverjum degi. Eftir að hafa búið í vestrænum löndum, eins og Íslandi þar sem jafnréttindi eru virt, er ég í áfalli eftir að hafa lesið fréttir og frásagnir sem hafa lekið út um sæmdarmorð í lokuðu landi eins og Íran. Undanfarnar vikur hafa verið framin fimm sæmdarmorð þar. Saklausar stúlkur eru drepnar og afhöfðaðar fyrir það eitt að ofbeldi og heimilisofbeldi er réttlætt í Íslamska lýðveldinu Íran,“ segir Nazanin. 

Hún segir að sæmdarmorð sé réttlætt á grundvelli þess að ofbeldismaðurinn telur að viðkomandi hafi fært skömm eða vanvirðingu yfir fjölskylduna. Hefðbundnar ástæður eru skilnaður eða að hafa yfirgefið maka sinn. Að hafa neitað að ganga í barna- eða þvingað hjónaband, að vera í sambandi við annað hvort aðra manneskju af sama kyni eða gagnstæðu kyni eða hafa tekið þátt í félagsstarfi án heimilar fyrir utan fjölskylduna. Að hafa stundað kynlíf fyrir hjónaband eða að hafa verið nauðgað eða beitt kynferðislegu ofbeldi er oft ástæða slíkra sæmdarmorða. Jafnvel að hafa klætt sig í fatnað eða notað skartgripi eða fylgihluti sem ekki þykja sæmandi segir Nazanin.

„En hvers vegna er svo auðvelt fyrir karla að fremja slík morð í Íran?“ spyr Nazanin. Hún segir að sjaría-lög veiti körlum rétt til að ráða yfir eiginkonum sínum, dætrum, systrum, mæðrum og að konur séu réttlausar samkvæmt þeim. Þess vegna geti karlar komist upp með morð án þess að þurfa að sæta refsingu. 

„Fateme var aðeins 18 ára gömul og var neydd til þess að giftast frænda sínum. Hún var misnotuð af eiginmanni sínum á hverjum degi þannig að hún yfirgaf heimilið og reyndi að lifa sjálfstæðu lífi. En eiginmaður hennar fann hana og afhöfðaði. Fjölskylda hennar vissi hvað hann ætlaði sér áður en hann framdi morðið,“ segir Nazanin. 

Reyhane var 22 ára gömul þegar hún var drepin af föður sínum þegar mamma hennar fór út í matvörubúð. Fréttir íranskra fjölmiðla herma að hann hafi heyrt af morðinu á Romina og að faðir hennar verði ekki sakfelldur fyrir það þannig að hann ákvað að drepa sína eigin dóttur á sama hátt. 

Fateme P. var aðeins 16 ára þegar hún var drepin af bróður stjúpföður hennar fyrir framan móður hennar sem gat ekkert gert til að koma dóttur sinni til bjargar. Asal var 10 ára þegar stjúpmóðir hennar myrti hana. 

„Mannúð er án landamæra og íbúar heimsins verða að sameinast um að virða mannréttindi,“ segir Nazanin. 

Hún hvetur fólk til þess að velta fyrir sér stöðu fólks annars staðar í heiminum og nota tíma sem kannski fer í að lesa slúður frekar í að lesa sér til um hvað eigi sér stað í löndum þar sem konur og minnihlutahópar njóta ekki réttinda. Að sýna öðrum konum stuðning og traust. „Byrjið heima hjá ykkur og kennið dætrum ykkar að sýna öðrum umhyggju og traust. Því það er svo margt sem er hægt að gera til að styðja konur í heiminum. Konur sem búa við erfiðar aðstæður og eða heimilisofbeldi.“

Heimilisofbeldi er talið útbreitt í Íran og yfirmaður stofnunar sem fer með málefni fjölskyldna sagði í nóvember að það hefði aukist um að minnsta kosti 20% á milli ára. Í apríl kom fram  að fjöldi tilkynninga um heimilisofbeldi hafi þrefaldast þegar útgöngubann var í gildi vegna kórónuveirunnar og að um fjögur þúsund manns hafi haft samband við hjálparsíma á degi hverjum á þeim tíma.

Konum bíður dauðadómur

Margar konur bera þá von í brjósti að ný barnalög muni bæta stöðu barna á margvíslegan hátt en þau munu samt sem áður ekki hafa áhrif á refsingar föður sem drepur barnið sitt. Dauðarefsing liggur við morði í Íran og er í sjaría-lögum vísað til auga fyrir auga í slíkum tilvikum. Aftur á móti eru forráðamenn undanskildir frá dauðarefsingum. Forráðamenn eru feður og föðurfeður samkvæmt írönskum lögum og bíður þeirra ekki dauðarefsing ef þeir drepa börn sín. Aftur á móti á móðir yfir höfði sér dauðadóm drepi hún barn sitt. Lögspekingar segja aftur á móti að hvergi sé minnst á þessa misskiptingu í Kórarninum líkt og stundum er haldið fram. 

AFP

„Hvernig er það mögulegt að faðir sem drepir er ekki látin sæta ábyrgð og ekki dæmdur til dauða?“ spyr þingkonan og kvenréttindakonan Faezeh Hashemi í viðtali við íranska fjölmiðla. Hún segir að með þessu verði lögin ekki sú vörn sem vænst var fyrir börn og konur. 

Aðrir, fámennur hópur þó, gagnrýnir að dauðarefsingu sé beitt og telja að ekki eigi að skipta máli hvort móðir eða faðir fremji morð — refsingin eigi að vera sú sama.

Faðir Romina hafi oft hótað henni áður en hann lét verða af hótun sinni en þau deildu um margt. Hún leyfði hári sínu að laumast undan slæðunni og birti myndir af sér á Instagram án híjab, klædd gallabuxum og stuttermabol með hárið flaksandi í vindinum. 

Þegar Reza Ashrafi  uppgötvaði að hún ætti kærasta missti hann stjórn á skapi sínu að sögn móður Romina, Rana Dashti, en fréttir íranskra fjölmiðla byggja meðal annars á hennar frásögn, annarra úr fjölskyldunni, kærastans og fjölskyldu hans.

Bað hana um að fremja sjálfsvíg

Kærastinn er bóndasonur sem einnig var í uppreisn gegn ráðandi gildum. Ók vélhjóli, er með tískuklippingu og húðflúr. Hann segir að sambandið við Romina hafi byrjað þegar hún var 12 ára gömul og hann hafi beðið hana um að giftast sér. Engin lög vernda börn gegn ástarsambandi við fullorðna og stúlkur mega giftast 13 ára með samþykki föður. Ashrafi hafnaði bónorðinu, ekki vegna aldursmunar heldur vegna þess að honum líkaði ekki við fjölskyldu kærastans.

Hann tók símann af Romina, læsti hana inni og að sögn Dashti hótaði hann og ógnaði henni.  Eitt kvöldið kom hann heim með rottueitur og reipi að hennar sögn og hvatti Romina til að fremja sjálfsvíg svo hann þyrfti ekki að drepa hana. Romina flúði að heiman en skildi eftir miða: „Pabbi þú vilt drepa mig. Ef einhver spyr þig hvar Romina er segðu að ég sé dauð.“ 

Þremur dögum síðar fann Reza Ashrafi dóttur sína og lét lögreglu vita. Sakaði hann kærasta hennar um að hafa rænt henni. Ekki var fallist á það af hálfu saksóknara eftir að Romina sagðist hafa farið af fúsum og frjálsum vilja að heiman. Þrátt fyrir að hún hafi lýst ótta sínum var ekki á það hlustað og hún send heim með pabba sínum. Daginn eftir var hún látin. 

Kvenréttindabarátta á sér langa sögu í Íran en bakslag kom í hana í íslömsku byltingunni 1979. Árið 2009 voru kvenréttindasamtök bönnuð og aðild gerð saknæm á grundvelli þjóðaröryggis.

Shirin Ebadi, friðarverðlaunahafi Nóbels árið 2003.
Shirin Ebadi, friðarverðlaunahafi Nóbels árið 2003. AP

Í dag eru helstu baráttukonurnar, þar á meðal Nóbelsverðlaunahafinn Shirin Ebadi og lögmaðurinn Nasrin Sotoudeh, annað hvort í útlegð eða fangelsi. Jafnvel Hashhemi, en faðir hennar var forseti og einn af helstu forsvarsmönnum byltingarinnar, var fangelsuð.

Þetta gerir konum afar erfitt um vik við að koma skoðunum sínum á framfæri opinberlega í Íran. „Ég er femín­isti og tók þátt í fram­boði kvenna í for­seta­kosn­ing­un­um árið 2009 í Íran. Þegar Mahoud Ahma­dinejad var lýst­ur sig­ur­veg­ari kosn­ing­anna fór­um við út á götu og mót­mælt­um enda var niðurstaða kosn­ing­anna fölsuð. Ég var einn af leiðtog­um Grænu hreyf­ing­ar­inn­ar sem stóð fyr­ir mót­mæl­um eft­ir kosn­ing­arn­ar. Við sem vor­um í fram­varðarsveit mót­mæl­enda vor­um hand­tek­in og pyntuð á ýmsa vegu í varðhaldi. Lög­fræðing­arn­ir sem við feng­um höfðu enga þekk­ingu né vilja til þess að verja okk­ur. Þeir fengu ekki einu sinni að tjá sig við rétt­ar­höld­in,“ seg­ir Naz­an­in í samtali við mbl.is fyrir tveimur árum en þá var hún í framboði á Íslandi.

Grænu mótmælin í Íran í júní 2009.
Grænu mótmælin í Íran í júní 2009. Wikipedia/Milad Avazbeigi

Hún flúði að áeggj­an föður síns skömmu áður en dóm­ur­inn var kveðinn upp því eft­ir að þau sáu ákær­una var ljóst að henn­ar biði löng fang­elsis­vist. Hún var ákærð fyr­ir ýmis atriði, svo sem að hafa reykt á al­manna­færi, að vera í sam­neyti við unga menn og að hafa brotið sja­ría-lög varðandi sam­skipti við karla, það er sofið hjá karl­manni án þess að vera gift.

Vin­kona henn­ar sem einnig tók þátt í mót­mæl­un­um flúði hins veg­ar ekki og sit­ur í fang­elsi í Íran. Fyr­ir sömu sak­ir og Naz­an­in: að krefjast rétt­inda sem flest­um Íslend­ing­um finn­ast sjálf­sögð og eðli­leg mann­rétt­indi. Mamma og syst­ir vin­konu henn­ar hafa einnig setið í fang­elsi fyr­ir skoðanir sín­ar. Þetta hefði beðið Naz­an­in ef hún hefði ekki forðað sér.

Spurð um hvers vegna hún hafi komið til Íslands seg­ir Naz­an­in að það hafi í raun ekki verið henn­ar ákvörðun, held­ur var það smygl­ar­inn, sem ætlaði að senda hana til Kan­ada, sem kom henni hingað og ákvað að hún skyldi sækja um hæli hér. Hún var gjör­sam­lega úr­vinda þegar hér var komið sögu eft­ir lang­an og erfiðan flótta þar sem hún dvaldi í fel­um og flúði um nokk­ur ríki áður en til Íslands var komið.

„Líf mitt fór á hvolf vegna stjórn­mála­skoðana minna. Í stað þess að lifa eðli­legu lífi þá varð ég að flýja land og yf­ir­gefa fjöl­skyldu mína. Ég hef ekki séð for­eldra mína né bróður í sex ár, því ég get ekki farið til Írans og þau fá ekki vega­bréfs­árit­un til að fara úr landi vegna mín. Því ég er á svört­um lista stjórn­valda sem eru sann­færð um að ef fjöl­skyld­an mín fær að fara úr landi þá muni hún ekki snúa aft­ur,“ sagði Naz­an­in í samtali við mbl.is í maí 2018.

Hjónin Nazanin Askari og Anthony Balsa.
Hjónin Nazanin Askari og Anthony Balsa. Ljósmynd úr einkasafni

Árið 2018 flutti Nazanin til unnusta síns, Anthony Balsa, en hann er bandarískur ríkisborgari. Þau gengu í hjónaband í desember 2018 og búa í strandbæ í Kaliforníu. Nazanin er alsæl þar. Hún segir að þar hafi hún fundið sitt heimili og þrátt fyrir að hafa notið dvalarinnar á Íslandi og eignast góða vini þá sé hún komin heim. 

Brúðhjónin Nazanin Askari og Anthony Balsa.
Brúðhjónin Nazanin Askari og Anthony Balsa. Ljósmynd úr einkasafni

Nazanin segir í samtali við mbl.is að sér hafi verið vel tekið sem innflytjanda í Bandaríkjunum og allir sýni henni umhyggju og vilji láta hana finna hversu velkomin hún er. Hún segir að þetta sé eitt af einkennum íbúa Kaliforníu. Að sýna öðrum umhyggju og þeir líti á innflytjendur sem blessun sem komi með nýja menningu til ríkisins. Hér sé ekki litið á innflytjendur sem einhverja óþokka sem ætli sér að stela starfinu þeirra. „Fyrir þetta allt er ég afar þakklát,“ segir Nazanin Askari Balsa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert