Ótrúlegar sviptingar á stuttum tíma

Fyrir tveimur mánuðum leit ekki út fyrir að það þyrfti nema eina umferð til að Andrzej Duda fengi umboð kjósenda til að gegna embætti forseta Póllands næstu fimm árin. Á ýmsu hefur gengið og nú tveimur umferðum síðar hefur Duda verið endurkjörinn en með minnsta mun sem um getur í pólskum forsetakosningum frá því kommúnistar misstu völdin árið 1989.

Seinni um­ferð for­seta­kosn­ing­anna í Póllandi fór fram gær og stóð valið á milli Duda fram­bjóðanda stjórn­ar­flokks­ins Laga og rétt­læt­is (PiS) og Rafal Trzaskowski, borg­ar­stjóra í Var­sjá og fram­bjóðanda Borg­ara­vett­vangs­ins (PO).

Pawel Bartoszek, borg­ar­full­trúi Viðreisnar, hefur fylgst grannt með forsetakosningunum en hann er staddur í pólsku borginni Poznań. Hann segir að eftir að Borgaravettvangur breytti um frambjóðanda og gerði Rafal Trzaskowski að sínum hafi flokknum tekist að endurnýja krafta sína. „Það munaði ekki miklu að honum tækist það. Það eru ákveðnar fréttir í þessari niðurstöðu. Þetta sýnir að það er enn ákveðinn styrkur í stjórnarandstöðunni í Póllandi en auðvitað er niðurstaða kosninganna að Duda er endurkjörinn forseti Póllands,“ segir Pawel í samtali við mbl.is.

Forseti Póllands, Andrzej Duda.
Forseti Póllands, Andrzej Duda. AFP

Þegar Duda var kjörinn forseti Póllands í maí 2015 kom það mjög á óvart en hann hlaut 51,55% at­kvæða. Þá þótti sitjandi forseti, Bronislaw Komorowski, sig­ur­strang­legri sam­kvæmt skoðana­könn­un­um. Þá lofaði Duda því í aðdraganda kosninganna að hækka laun fólks og náði þannig eyr­um bæði ungs og gam­als fólks.

Pawel segir að á þeim tíma hafi Duda verið yngri og um leið ferskari frambjóðandi. „Hann rak að mínu mati, út frá faglegu sjónarhorni, afskaplega faglega kosningabaráttu þá. ­Hann tók þátt í kappræðum í sjónvarpi bæði fyrir fyrri og seinni umferð en þá kaus forsetinn að mæta í hvorugar umræðurnar og ég held að það hafi verið afdrifarík mistök því það gerði Andrzej Duda að aðalframbjóðandanum og gaf honum vægi,“ segir Pawel.

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar.
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Pawel segir að það hafi ekki verið haldnar kappræður fyrir kosningarnar í ár þar sem frambjóðendur komu sér ekki saman um form þeirra. Því hafi Duda komið fram í ríkissjónvarpinu á meðan Trzaskowski var gestur frjálsu stöðvanna. Útsendingarnar hafi verið á sama tíma og því aldrei reynt á þá saman. „Ég fer ekki ofan að því að það hefði verið sterkari leikur fyrir Trzaskowski að finna einhverja leið til að mæta Duda í kappræðum. Það hefði verið áhætta en það var ljóst á síðustu metrum kosningabaráttunnar, þegar stressið var orðið mjög mikið, að hvorugur vildi taka áhættu. Hvorugur vildi fara í aðstæður þar sem þeir réðu ekki fullkomlega og niðurstaðan var sú að Duda hafði sigur,“ segir Pawel.

Kjörsókn var mjög góð alls staðar en óx hlutfallslega meira í dreifbýli en borgum þegar leið á daginn segir Pawel. Hann segir að af stærstu borgum Póllands hafi Trzaskowski haft betur og það meira að segja í borgum og sýslum í austri. 

Pawel segir að Lög og réttlæti virðist hafa átt meira inni í að ná í sína kjósendur í dreifði byggðum á milli umferða en Borgaravettvangur, flokkur Trzaskowski.

Forsetahjónin Andrzej Duda og Agatha.
Forsetahjónin Andrzej Duda og Agatha. AFP

Í viðtali við mbl.is um helgina kom fram hjá Pawel að valið hafi staðið á milli tveggja skýrra val­kosta: nú­ver­andi for­seta sem gefi sig út fyr­ir að vera íhalds­sam­ur þjóðern­is­sinni, og Trzaskowski sem standi fyr­ir frjáls­lynd­ari gildi.

„Á marg­an hátt er Borg­ara­vett­vang­ur­inn [flokk­ur Trza­skowski] til­tölu­lega hefðbund­inn hægri­flokk­ur sem stend­ur fyr­ir frjáls­an markað, lægri skatta og er evr­óp­us­innaður. Þá er hann frjáls­lynd­ari þegar kem­ur að rétt­ind­um kvenna og hinseg­in fólks, þótt hann þætti ekki mjög rót­tæk­ur á ís­lensk­an mæli­kv­arða.“

Borgarstjórinn í Varsjá, Rafal Trzaskowski .
Borgarstjórinn í Varsjá, Rafal Trzaskowski . AFP

Þau mál sem blasa við að loknum kosningum: Evrópumál og réttindamál. Hvaða áhrif hefur niðurstaðan?

Pawel segist ekki fara leynt með að Trza­skowski hafi verið hans draumaframbjóðandi í þessum kosningum. „Ég ætla ekki að reyna að þykjast verð hlutlaus fuglaskoðunarmaður,“ segir Pawel. „Ég hef áhyggjur af ákveðnum málum og það er ástæða fyrir því. Kjörtímabil Laga og réttlætis undanfarin ár hefur einkennst annars vegar að ýmsum félagslegum aðgerðum sem segja má að séu pólitískar. Síðan hafa þeir verið duglegir að ná völdum á ríkissjónvarpinu og ég held að það sé ekki hægt að finna hlutlausan pólskan áhorfanda sem tekur ekki undir það að pólska ríkissjónvarpið er orðið málgagn Laga og réttlætis. Það er þannig og kemur fram í skýrslum eftirlitsaðila sem hafa fylgst með kosningum svo sem á vegum ÖSE [Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu] og ODIHR [lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE] að hlutfall jákvæðra frétta af frambjóðendum stjórnarandstöðunnar er nánast ekki neitt á meðan ítarlega er fjallað um aðgerðir stjórnarinnar,“ segir Pawel. 

Hann segir að innan Laga og réttlætis hafa verið uppi hugmyndir um að skoða þurfi reglur varðandi eignarhald fjölmiðla, svo sem eignarhald erlendra aðila. Að það þurfi að bregðast við þessu og segir Pawel að fólk hafi áhyggjur af því að forsetinn beiti ekki neitunarvaldi komi að því að sett verði lög í þá veru. Hann hafi beitt neitunarvaldi varðandi dómstólana á sínum tíma en for­set­inn hef­ur vald til að neita að skrifa und­ir lög en geri hann það þarf auk­inn meiri­hluta þing­manna til að þau fái staðfest­ingu.

Kjörsókn var afar góð í Póllandi.
Kjörsókn var afar góð í Póllandi. AFP

Pawel sagði í viðtali við mbl.is á laugardag að lík­lega verði þetta til þess að þing­menn stjórn­ar og stjórn­ar­and­stöðu verði að hafa meira sam­ráð sín á milli, sér­stak­lega í ljósi þess að stjórn­ar­andstaðan hef­ur þegar meiri­hluta í efri deild þings­ins. 

„Ég vona að þegar hann er núna kominn á sitt seinna kjörtímabil og hefur frjálsari hendur þá muni hann rækja þetta hlutverk sitt betur. En við megum ekki gleyma því að það er varla liðin vika síðan hann lagði til stjórnarskrárbreytingu sem myndi banna samkynhneigðum pörum ættleiðingu barna,“ segir Pawel og bætir við að þetta sé kosningaloforð sem þurfi að taka fyrir á þingi með þeim afleiðingum sem það hefur á líðan fólks í LGBT-samfélaginu. 

Á Íslandi fékk Duda 20,20% atkvæða á meðan Trzaskowski fékk 79,80% atkvæða en um þrjú þúsund Pólverjar á Íslandi greiddu atkvæði í sendiráði Póllands á Íslandi.

Rafal Trzaskowski kyssir hér eiginkonu sína, Malgorzata, eftir að hafa …
Rafal Trzaskowski kyssir hér eiginkonu sína, Malgorzata, eftir að hafa ávarpað stuðningsmenn sína eftir að fyrsta útgönguspá var birt. AFP
Pólverjar greiddu atkvæði í sendiráði Póllands á Íslandi.
Pólverjar greiddu atkvæði í sendiráði Póllands á Íslandi. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert