Pompeo: Kröfur Kína í Kínahafi ólögmætar

Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti í dag að bandarísk stjórnvöld teldu „flestar“ kröfur Kína um yfirráð yfir hafsvæðum í Suður-Kínahafi ólögmætar. Er tilkynning Pompeo nýjasta vendingin í deilum stórveldanna tveggja sem virðast stigmagnast með degi hverjum. CNN greinir frá þessu.

Pompeo sagði að ályktun bandarískra stjórnvalda styrkti stefnu Bandaríkjanna og fullyrti að „kröfur Peking á auðlindir við strendur víðsvegar við strendur Suður-Kínahafs“ væru „fullkomlega ólögmætar“.

„Heimurinn mun ekki leyfa Peking að meðhöndla Suður-Kínahaf sem siglingaveldi sitt. Ameríka stendur með bandamönnum okkar í Suðaustur-Asíu í því að vernda fullveldisrétt sinn á auðlindum á hafi úti, í samræmi við réttindi þeirra og skyldur samkvæmt alþjóðalögum,“ sagði Pompeo í langri yfirlýsingu sinni. 

SÞ taldi að kröfur Kína ættu sér enga stoð í alþjóðalögum

Ákvörðunin er sögð þýðingarmikil og stórt áfall í diplómatísku tilliti. Hún leyfir Bandaríkjunum að benda á að athafnir Kína séu ólöglegar og hvetur Evrópuríki til að gera líkt hið sama. 

Pompeo segir að með ályktun sinni væru Bandaríkjamenn að samræma afstöðu sína við ákvörðun dómstóls Sameinuðu þjóðanna sem dæmdi Filippseyjum í hag og gegn kröfum Kína sem byggðust á því að landið ætti sögulegar og efnahagslegar kröfur á stóran hluta Suður-Kínahafs. Dómurinn var á þá leið að kröfur Kína ættu sér enga stoð í alþjóðalögum. 

Í yfirlýsingunni beindi Pompeo jafnframt spjótum sínum að tilraunum Kína til að koma á kröfum á hafsvæði innan svæða annarra landa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert