Fyrsta aftakan á vegum alríkisyfirvalda í Bandaríkjunum í meira en 17 ár fer fram í Indíana-ríki í Bandaríkjunum í kvöld þegar Daniel Lewis Lee verður tekinn af lífi. Lee og sökunautur hans voru dæmdir fyrir að myrða og pynta þriggja manna fjölskyldu árið 1996.
Nokkrir fjölskyldumeðlima fórnarlambanna eru á móti dauðarefsingunni og kröfðust þess fyrir áfrýjunardómstóli að henni yrði frestað á þeim grundvelli að ferðalagið til Indíana myndi gera þau útsett fyrir kórónuveirunni.
Dómstóllinn hafnaði þeim málflutningi og fer aftakan því fram. Fjölskyldumeðlimirnir ætla hins vegar að kæra úrskurðinn í til Hæstaréttar Bandaríkjanna en samkvæmt The New York Times verður dómstóllinn bregðast við fyrir klukkan 16:00 að staðartíma, eða klukkan 20:00 á íslenskum tíma til að koma í veg fyrir aftökuna.
Lee, sem á sínum tíma trúði því að hvíti kynþátturinn væri öðrum æðri, pyntaði og myrti þriggja manna fjölskyldu, átta ára barn og foreldra þess, áður en hann henti líkunum í stöðuvatn. Hann átti upphaflega að vera tekinn af lífi í desember en dómstóll kom í veg fyrir það. Æðra settur áfrýjunardómstóll hefur nú gefið grænt ljós á að aftakan fari fram.
Lee myrti dóttur, barnabarn og tengdason Earlene Peterson en hún hefur barist gegn því að hann verði tekinn af lífi. Hún vill frekar að hann fái lífstíðarfangelsisdóm eins og sökunautur hans.
„Já Daniel Lee skemmdi líf mitt, en ég trúi því ekki að það að taka hann af lífi muni breyta því á nokkurn hátt, sagði hún í ávarpi á síðasta ári.
Fyrirhuguð aftaka Lee er ein af fjórum sem skipulagðar eru í júlí og ágúst. Allir fjórir fangar eiga það sameiginlegt að hafa myrt barn.