Vinsamlega skattleggið okkur!

80 auðmenn hafa birt ákall um aukna skattheimtu vegna kórónuveirufaraldursins.
80 auðmenn hafa birt ákall um aukna skattheimtu vegna kórónuveirufaraldursins. AFP

Rúmlega 80 auðmenn hafa birt ákall um aukna skattheimtu til þess að mæta þeirri alþjóðlegu fjárþörf sem skapast hefur vegna kórónuveirufaraldursins. Hópurinn sem kallar sig „Milljónamæringar fyrir mannkyn“ (e. Millionaires for Humanity), birti nú á dögunum opið bréf þar sem ríkisstjórnir heimsins eru hvattar til þess að leggja auknar álögur á hina ofurríku og leggur áherslu á að slíkar aðgerðir þurfi að gerast umsvifalaust, vera umfangsmiklar og varanlegar.

„Það eru ekki við sem keyrum sjúkrabílana“

Hópurinn er alþjóðlegur, en flestir á listanum eru þó frá Bandaríkjunum. Þar má finna mörg þekkt nöfn úr viðskiptalífi s.s. Jerry Greenfield, einn stofnanda „Ben and Jerry´s“ rjómaíss og Abigail Disney, kvikmyndaframleiðanda og aðgerðasinna. Í bréfinu kemur fram þakkarskuld við þá sem vinna á framlínu í baráttu við vírusinn og sú árétting að án fjármagns verði lítið að gert.

Jerry Greenfield (t.h.) er einn þeirra sem setti nafn sitt …
Jerry Greenfield (t.h.) er einn þeirra sem setti nafn sitt á listann. AFP

„Ólíkt tugi milljóna manna um heiminn allan, þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að tapa vinnunni, heimili eða getunni til að halda uppi fjölskyldum okkar“, segir í yfirlýsingunni. Þar er staðhæft að margir ofurríkir séu mjög aflögufærir til þess að leggja til fjármagn í baráttuna. Ekki sé nægilegt að gefa til góðgerðarmála; stjórnmálamenn verði að bera ábyrgð á því að afla fjár og tryggja að því sé dreift á réttlátan hátt.

Niðurstaða hópsins er því:  „skattleggið okkur, skattleggið okkur, skattleggið okkur...“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert