Tekist á um aftökur

Daniel Lew­is Lee.
Daniel Lew­is Lee. AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur staðfest heimild alríkisyfirvalda til þess að taka fanga af lífi en þetta í fyrsta skipti í 17 ár sem það er gert. Hæstiréttur sneri þar við ákvörðun lægra dómsstigs.

Í niðurstöðu hæstaréttar kemur fram að dómstóllinn snúi við fyrri niðurstöðu héraðsdóms þannig að fyrirhugaðar aftökur, fjórar talsins, geti farið fram. Áður hafði héraðsdómari, Tanya Chutkan, frestað aftökunum vegna þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið við lyfið sem notuð er við aftökurnar. Vildi hún fá úr því skorið hvort aftökuaðferðin stæðist lög. Vegna þessa var aftöku Daniel Lew­is Lee frestað á síðustu stundu í gærkvöldi.

ONLY ==
ONLY == AFP

Ekki hefur verið upplýst um hvenær hann verður tekinn af lífi enda niðurstaða hæstaréttar aðeins gerð ljós nú á sjöunda tímanum í morgun, þriðjudag.

Taka átti Daniel Lewis Lee að lífi í Indiana klukkan 16 í gær að bandarískum tíma, klukkan 23 að íslenskum tíma. Nota átti banvænan skammt af pentobarbital  sem er áhrifa­mikið ró­andi lyf sem hæg­ir á lík­ams­starf­sem­inni, m.a. tauga­kerf­inu, og get­ur þannig slökkt á allri lík­ams­starf­semi. Chutkan sagði að vísbendingar væru um að pentobarbital gæti valdið óbærilegum kvölum og þannig brotið gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna.

AFP

Tanya Chutkan sagði að enn væru óleyst ákveðin ákvæði og skera þyrfti úr þeim áður en lengra væri haldið. Ríkisstjórn Donalds Trump var ekki sammála Chutkan og krafðist þess að aftakan færi fram áður en niðurstaða hæstaréttar lægi fyrir. Það var aftur á móti ekki gert og Lee því enn á lífi.

Síðar í vikunni stendur til að taka tvo aðra fanga af lífi, Wesley Ira Purkey, á morgun og Dustin Lee Honken á föstudag. Fjórði maðurinn, Keith Dwayne Nelson, verður tekinn af lífi í ágúst.

Daniel Lewis Lee var dæmdur fyrir að hafa myrt þrennt úr sömu fjölskyldu ásamt félaga sínum en morðin frömdu þeir við ránstilraun. Rán sem var framið til þess að veita kynþáttahaturssamtökunum Aryan Peoples Republic fjárstuðning en þeir trúðu á yfirburði hvíta kynstofnsins.

Svæði fyrir fjölmiðla við Terre Haute fangelsið í Indiana þar …
Svæði fyrir fjölmiðla við Terre Haute fangelsið í Indiana þar sem Daniel Lewis Lee verður tekinn af lífi. AFP

Í niðurstöðu hæstaréttar segir meðal annars að fangarnir hafi ekki sýnt fram á neitt sem réttlæti inngrip alríkisdómstóls. Því snúi hæstiréttur við ákvörðun héraðsdóms um frestun þess að taka fangana af lífi. „Þannig að aftökurnar geta farið fram eins og til stóð.“

Í niðurstöðu sinni hafði Chutkan sagt að notkun pentobarbital gæti valdið ólýsanlegum kvölum og tilgangslausum þjáningum. Að notkun þess gæti gert af­tök­urn­ar svo kvala­full­ar að þær stæðust ekki ákvæði stjórn­ar­skrár.

Trump vill fjölga aftökum

Lee verður fyrstur til þess að vera tekinn af lífi af alríkinu í Bandaríkjunum frá árinu 2003 og um leið sá fyrsti síðan Donald Trump greindi frá fyrirætlunum um að endurvekja slíkar aftökur. Aðeins hafa farið fram þrjár aftökur á vegum alríkisins frá því heimilað var að nýju að taka fólk af lífi í Bandaríkjunum árið 1988. 

Lee var, ásamt Chevie Kehoe, dæmdur í Arkansas árið 1999 fyrir að hafa drepið byssusalan William Mueller, eiginkonu hans og átta ára gamla dóttur hennar. Að sögn saksóknara var ætlun þeirra að ræna byssum frá Mueller sem þeir ætluðu að selja til að veita kynþáttaníðssamtökunum fjárstuðning eins og áður sagði.

Lee hefur síðan, að sögn lögmanna hans, snúið baki við skoðunum sínum um yfirburði hvíta kynstofnsins. Hann var dæmdur til dauða en Kehoe var dæmdur í þrefalt lífstíðarfangelsi án möguleika á náðun. 

Telur aftöku losa Lee undan þjáningum

Móðir eiginkonu Mueller, Earlene Peterson, sem er 81 að aldri, hefur barist gegn því að Lee verði tekinn af lífi. Hún segist vilja að hann dvelji bak við lás og slá það sem eftir lifir. Að hann þurfi að lifa með afleiðingum gjörða sinna það sem eftir lifir líkt og hún þurfi að gera vegna gjörða þeirra og þeim þjáningum sem þeir hafa valdið fjölskyldunni. 

Á sunnudag greindu fangelsismálayfirvöld frá því að starfsfólk í fangelsinu, þar sem aftakan átti að fara fram, hefði greinst með kórónuveiruna. Robert Dun­ham, fram­kvæmda­stjóri upp­lýs­inga­miðstöðvar um dauðarefs­ing­ar (De­ath Penalty In­formati­on Center), taldi að engin ástæða væri til að taka fanga af lífi við þessar aðstæður, það er á meðan farsótt geisar í landinu.

Eins hafa yfir eitt þúsund trúarleiðtogar í Bandaríkjunum beðið Trump um að hætta við fyrirhugaðar aftökur á vegum alríkisins. 

Dunham sakar Trump um að nota aftökur í pólitískum tilgangi en Trump hefur hvatt til þess að dauðarefsingum verði beitt í auknu mæli. Ekki síst þegar lögreglumenn eru drepnir og þegar fólk er fundið sekt um sölu fíkniefna.

Aðeins hluti ríkja Bandaríkjanna heimilar enn dauðarefsingar og í fyrra voru þær alls 22 talsins. Í flestum tilvikum eru sakadómar á forræði ríkjanna en í einstaka tilvikum koma þeir til kasta alríkisins, einkum þegar um alvarlegustu glæpina er að ræða, svo sem hryðjuverkaárásir og hatursglæpir að því er segir í umfjöllun AFP-fréttastofunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert