Úrskurðaður látinn 8:07

Daniel Lewis Lee.
Daniel Lewis Lee. AFP

„Þið eruð að drepa saklausan mann,“ voru síðustu orð Daniel Lewis Lee sem var tekinn af lífi klukkan 8:07 að bandarískum tíma (12:07 að íslenskum tíma). Nokkrum klukkustundum eftir að hæstiréttur hafði heimilað aftökuna. Lee var tekinn af lífi með banvænni lyfjainnspýtingu í Terre Haute ríkisfangelsinu í Indíana. Þetta er fyrsta aftakan á vegum alríkisstjórnarinnar í Bandaríkjunum í sautján ár. 

Á sama tíma og dómarar fóru yfir beiðni verjenda Lee, um að samkvæmt áttundu grein stjórnarskrárinnar væri ekki heimilt að taka Lee af lífi með þessum hætti, beið Lee bundinn niður á sjúkrabörunum í um það bil fjórar klukkustundir. 

AFP

Um 20 manns fylgdust með aftökunni í fjórum herbergum vegna sóttvarna í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Klukkan 7:46 var dregið frá gluggatjöldunum í herbergjunum fjórum og við blasti Lee á sjúkrabörunum með hendur niður með hliðum og tvo æðaleggi þar sem pentobarbital, sem er áhrifa­mikið ró­andi lyf sem hæg­ir á lík­ams­starf­sem­inni, m.a. tauga­kerf­inu, og get­ur þannig slökkt á allri lík­ams­starf­semi, var dælt inn í æðar fangans. 

Lee var spurður hvort hann vildi tjá sig að lokum. Lee gagnrýndi réttarkerfið fyrir að hafa hunsað niðurstöðu lífsýnarannsókna og hélt fram sakleysi sínu. „Ég ber ekki ábyrgð á dauða Mueller-fjölskyldunnar,“ sagði hann. Að hann og félagi hans hafi ekki einu sinni verið í sama ríki og morðin voru framin.

Það tók Lee aðeins tvær eða þrjár mínútur að deyja frá því byrjað var að dæla lyfinu í hann. Hann virtist ekki kveljast segir í fréttum fjölmiðla, hann reyndi að reisa höfuðið upp einu sinni án árangurs.

Taka átti Lee að lífi í gærkvöldi en aftakan var stöðvuð þangað til hæstiréttur hefði tekið málið fyrir. Þar var niðurstaðan 5-4. Meirihlutinn réð og Lee var tekinn af lífi. 

Frétt Indianapolis Star

Frétt BBC

Frétt Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert