Dr. Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, lýsir tilraunum ríkisstjórnar Donald Trump Bandaríkjaforseta til að koma óorði á hann sem „skrýtnum“ og „þvættingi“. BBC greinir frá.
Hvíta húsið gaf á sunnudaginn út minnisblað yfir meint röng ummæli eða mistök Fauci síðan kórónuveirufaraldurinn skall á Bandaríkjunum. „Á endanum þá kemur þetta niður á forsetanum,“ sagði hann í viðtali við fjölmiðilinn The Atlantic.
„Ég get ekki í mínum villtustu draumum ímyndað mér af hverju í ósköpunum þau myndu gera þetta. Ég held að þau átti sig á því núna að þetta var ekki skynsamlegt, af því þetta kastar rýrð á þau,“ bætti hann við.
Þrátt fyrir að Fauci hafi verið harðlega gagnrýndur af mörgum sem eru hliðhollir forsetanum og að Trump sjálfur hafi endurtíst slíkri gagnrýni sagðist hann í dag eiga í „góðu sambandi“ við lækninn.
Fauci greindi frá því nýlega að hann hefði síðast hitt forsetann fyrir mánuði síðan og þeir hafi ekki rætt faraldurinn í tvo mánuði. Síðan þá hafa dauðsföll í Bandaríkjunum næstum því tvöfaldast.
„Við erum öll í sama liði, þar á meðal Dr. Fauci. Við viljum losna við klúðrið sem sem Kína sendi okkur, og við erum öll á sömu blaðsíðu og okkur gengur mjög vel,“ sagði Trump.