Elon Musk, Jeff Bezos, Joe Biden, Barack Obama og Bill Gates voru meðal þeirra sem lentu í því að Twitter-aðgangar þeirra voru hakkaðir fyrr í kvöld af svikahröppum sem ætluðu að plata fólk í að gefa frá sér fjármagn í rafmyntinni Bitcoin.
„Ég ætla að gefa af mér til samfélagsins,“ voru skilaboð sem birtust á aðgöngum margra þeirra og þeim fylgdi loforð um að tvöfalda fjármagn ef fólk myndi millifæra Bitcoin að andvirði 1.000 Bandaríkjadala.
Stórfyrirtækin Apple, Uber, Microsoft og tónlistarmaðurinn Kanye West voru einnig á meðal þeirra sem lentu í klóm svikahrappana. Þjónustuaðgangur Twitter sendi frá sér færslu í kjölfarið þar sem kom fram að fyrirtækið væri meðvitað um öryggisbrotin og að þau væru í rannsókn.
Miðað við stöðu margra notenda sem voru hakkaðir eru einhverjir farnir að ræða um þetta sem umfangsmesta brot á netöryggi í sögu Twitter, jafnvel samfélagsmiðla. Í því samhengi er talað um að það geti haft skelfilegar afleiðingar ef röng skilaboð eru send út frá ákveðnum notendum, til að mynda Donald Trump Bandaríkjaforseta sem notar samfélagsmiðilinn mikið.