Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna heimsækir Danmörku og Bretland í næstu viku. Frá þessu greindi ráðherrann í dag.
Í Kaupmannahöfn fundar Pompeo með Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Jenis av Rana, utanríkisráðherra Færeyja, og Steen Lynge, utanríkisráðherra Færeyja. Danska ríkisútvarpið hefur eftir utanríkisráðherra Danmerkur, að hann hlakki til að bjóða kollega sinn Mike Pompeo velkominn.
Málefni norðurslóða verði einnig sérstaklega til umræðu. Stutt er síðan Carla Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku, var í Færeyjum og fundaði hún með fyrrnefndum Jenis av Rana, sem sagði í kjölfarið að Bandaríkin væru áhugasöm um að „gera Færeyjar að einskonar miðstöð fyrir bandaríska flotann“.
Pompeo sagði á blaðamannafundi í dag að „kínverski kommúnistaflokkurinn og árásir hans á frjálsar þjóðir um allan heim yrðu efst á döfinni“ á fundunum og vísaði í kjölfarið sérstaklega til ástandsins í Hong Kong.
Þá má vænta þess að málefni kínverska fjarskiptafélagsins Huawei verði til umræðu. Bandarísk stjórnvöld hafa hvatt bandalagsþjóðir sínar til að sniðganga fyrirtækið við uppsetningu 5G-kerfa af öryggisástæðum, en þau óttast, líkt og fleiri, aðgang stjórnvalda þar í landi að kerfum fyrirtækisins. Í gær tilkynntu bresk stjórnvöld að þau myndu banna fjarskiptafyrirtækjum í landinu að nota búnað frá kínverska fjarskiptafyrirtækinu Huawei við uppbyggingu á 5G-neti í landinu frá og með áramótum.