Stytta af þrælakaupmanni sem breskir Black Lives Matter-mótmælendur steyptu af stalli sínum í júní síðastliðnum var skipt út í dag, án leyfis, og stendur þar nú stytta af svartri konu sem var ein af þeim sem ýtti styttunni niður.
Um er að ræða styttu af Jen Reid með hnefann á lofti. Áður stóð stytta af Edward Colston í borginni Bristol þar sem Reid stendur nú. Múgur kastaði styttunni af Colston í sjóinn eftir að hafa hrint henni niður.
Nýja styttan var reist án vitneskju borgarstjórnar Bristol en hún ber heitið „alda krafts“. Reid var viðstödd afhjúpun styttunnar og sagði í samtali við Guardian að atvikið væri „bara ótrúlegt.“
„Þetta mun halda samtalinu [um misrétti á grundvelli litarhafts] áfram. Ég get ekki séð að því ljúki á næstunni,“ sagði Reid.
Bristol er ein af þeim borgum sem var hvað mest flækt í þrælahald á átjándu og nítjándu öld. Styttan af Colston hafði staðið þar síðan árið 1895. Colston var þrælakaupmaður á átjándu öld og þingmaður íhaldsflokks. Fyrirtæki hans flutti með valdi fjölda vestur-Afríkubúa frá heimalöndum sínum til Bretlands.
Mótmælendurnir sem hrintu styttu Floyd niður eru hluti af Black Lives Matter-hreyfingunni sem fór af stað eftir að lögregla drap George Floyd, bandarískan svartan karlmann, í Minnesota í Bandaríkjunum í maí síðastliðnum.