Leyfa ætti Shamimu Begum að snúa aftur til Bretlands og berjast gegn þeirri ákvörðun stjórnvalda að svipta hana breskum ríkisborgararétti.
Þetta er niðurstaða bresks áfrýjunardómstóls.
Talsvert hefur verið fjallað um mál Begum, sem nú er tvítug að aldri, en hún er ein þriggja breskra skólastúlkna sem yfirgáfu Lundúni til að ganga til liðs við samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki í Sýrlandi árið 2015.
Innanríkisráðuneyti Bretlands svipti Begum ríkisborgararétti á síðasta ári eftir að hún fannst í flóttamannabúðum, en áfrýjunardómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að Begum hafi ekki hlotið réttmæta málsmeðferð þar sem hún hafi ekki getað borið hönd fyrir höfuð sér úr flóttamannabúðunum í Sýrlandi.
Innanríkisráðuneytið hefur brugðist við úrskurðinum og sagt hann valda vonbrigðum. Þá verði sótt um áfrýjunarleyfi.
Samkvæmt frétt BBC hefur úrskurðurinn það í för með sér að bresk stjórnvöld muni nú neyðast til að finna leið til að leyfa Begum að mæta fyrir dóm í London, þrátt fyrir að þau hafi ítrekað sagst ekki ætla að greiða fyrir heimkomu hennar frá Sýrlandi.
Málflutningsmaður Begum segir hana aldrei hafa fengið tækifæri til að segja sína hlið sögunnar. „Hún er ekki hrædd við að mæta bresku réttlæti, hún fagnar því. En að svipta hana ríkisborgararétti án þess að hún fái tækifæri til að hreinsa nafn sitt er ekki réttlæti, það er hið andstæða.“