Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, tilkynnti í kvöld að hann væri ennþá með kórónuveiruna eftir að hafa fengið niðurstöðu sýnatöku frá því í gær. Hann ætlar þó að fara í aðra sýnatöku á „næstu dögum“ til öryggis.
„Mér líður vel, guði sé lof. Í gærmorgun fór ég í sýnatöku og í kvöld fékk ég þau svör að ég væri ennþá með kórónuveiruna,“ sagði forsetinn í beinni útsendingu á Facebook Live.
Bolsonaro sagðist ekki vera með nein einkenni COVID-19 sjúkdómsins og að inntaka hans á malaríulyfinu hýdroxíklórókín, sem hann hefur tekið síðan hann greindist smitaður fyrir viku síðan, væri að bera árangur.
„Ég er ekki að mæla með neinu. Ég ráðlegg ykkur að tala við lækni. Í mínu tilfelli þá ráðlagði herlæknir mér að taka hýdroxíklórókín og það virkaði,“ sagði Bolsonaro.
Í stuttri yfirlýsingu frá skrifstofu forsetans kom fram að Bolsonaro myndi vera áfram í sóttkví í Alvorado-forsetahöllinni. Forsetinn sagðist í samtali við CNN á mánudaginn ekki þola að hanga heima hjá sér og að hann biði með eftirvæntingu eftir því að komast út aftur.