„Ég er ennþá með kórónuveiruna“

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, ætlar að taka nýtt próf á …
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, ætlar að taka nýtt próf á næstu dögum. AFP

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, tilkynnti í kvöld að hann væri ennþá með kórónuveiruna eftir að hafa fengið niðurstöðu sýnatöku frá því í gær. Hann ætlar þó að fara í aðra sýnatöku á „næstu dögum“ til öryggis.

„Mér líður vel, guði sé lof. Í gærmorgun fór ég í sýnatöku og í kvöld fékk ég þau svör að ég væri ennþá með kórónuveiruna,“ sagði forsetinn í beinni útsendingu á Facebook Live.

Bolsonaro sagðist ekki vera með nein einkenni COVID-19 sjúkdómsins og að inntaka hans á malaríulyfinu hýdroxí­klórókín, sem hann hefur tekið síðan hann greindist smitaður fyrir viku síðan, væri að bera árangur.

„Ég er ekki að mæla með neinu. Ég ráðlegg ykkur að tala við lækni. Í mínu tilfelli þá ráðlagði herlæknir mér að taka hýdroxí­klórókín og það virkaði,“ sagði Bolsonaro.

Í stuttri yfirlýsingu frá skrifstofu forsetans kom fram að Bolsonaro myndi vera áfram í sóttkví í Alvorado-forsetahöllinni. Forsetinn sagðist í samtali við CNN á mánudaginn ekki þola að hanga heima hjá sér og að hann biði með eftirvæntingu eftir því að komast út aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert