Samtökin National Association of Police Organizations (NAPO) hafa lýst yfir stuðningi við Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum, sem fram fara í nóvember. Samtökin greindu frá þessu í bréfi til Bandaríkjaforseta í dag, sem hann endurbirtir á Twitter.
Samtökin studdu hvorugan frambjóðandann í kosningunum 2016, en höfðu áður lýst yfir stuðningi við framboð Baracks Obama árin 2008 og 2012. Joe Biden, mótframbjóðandi Trumps, var einmitt varaforseti hans
Í bréfinu segir að með stuðningnum viðurkenni samtökin dyggan stuðning forsetans við lögreglumenn, einkum á tímum ósanngjarnrar og ónákvæmrar óvirðingar sem svo margir beini nú að lögreglunni. Ætla má að þar sé vísað til mótmæla gegn kynþáttafordómum og ofbeldi lögreglumanna sem geisað hafa í Bandaríkjunum í sumar.
Er forsetanum sérstaklega þakkað fyrir að hafa stutt dómsmálaráðherra í að sækja til saka þá sem ráðast á lögreglumenn, fyrir undirritun laga um velferð og andlega heilsu lögreglumanna og fyrir að hafa tryggt áframhaldandi fjárframlög til sjóðs sem styður við þá framlínustarfsmenn sem tóku þátt í aðgerðum á vettvangi hryðjuverkaárásanna 11. september 2001.
Lögreglusamtökin NAPO eru hagsmunasamtök meira en 2.000 lögregluumdæma í Bandaríkjunum, en því tilheyra 241.000 lögreglumenn og 11.000 fyrrverandi lögreglumenn. Kosið var um stuðninginn meðal félagsmanna og fékk tillagan stuðning meira en 2/3 hluta kjósenda, sem til þurfti til að stuðningsyfirlýsing væri send út.
Trump þakkaði félagsmönnum fyrir á Twitter og hét því sem fyrr að styðja við bakið á lögreglunni. „Lög og regla munu ráða ríkjum,“ sagði forsetinn en vika er síðan hann mildaði dóm yfir Roger Stone, fyrrverandi ráðgjafa hans, sem hafði verið dæmdur í 40 mánaða fangelsi fyrir að hindra framgang réttvísinnar.