Fjölgun kórónuveirusmita aldrei meiri

Mótmæli gegn ríkisstjórninni í Ísrael fóru fram í dag. Ísraelar …
Mótmæli gegn ríkisstjórninni í Ísrael fóru fram í dag. Ísraelar eru ósáttir með viðbrögð stjórnvalda við útbreiðslu veirunnar þar í landi. AFP

Dagleg fjölgun tilfella kórónuveirusmita á heimsvísu hefur aldrei verið meiri en í dag, að því er Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin greinir frá. Smituðum fjölgaði um 259.848 á síðasta sólarhring. Mesta fjölgunin var skráð í Bandaríkjunum, Brasilíu, Indlandi og Suður-Afríku.

Fyrra met daglegrar fjölgunar tilfella var 237.743 ný tilfelli á einum sólarhring. Dauðsföllum fjölgaði nú um 7.360 á einum sólarhring og er það mesta aukning á einum sólarhring síðan 10. maí. 

Aldrei fleiri dáið í Arizona

Víðsvegar um heim grípa þjóðir til róttækari aðgerða í baráttunni við veiruna. Þar má nefna að Frakkar ætla að gera grímur að skyldubúnaði frá og með næsta mánudegi, eftirlit með eftirfylgni takmarkana í Amsterdam var hert um helgina og stjórnvöld í Afganistan hafa óskað eftir alþjóðlegri hjálp í baráttunni. Þá mótmæltu Ísraelar því hvernig ísraelsk stjórnvöld hafa tekist á við faraldurinn í dag.

Skotar tilkynntu í dag um hæsta fjölda smitaðra á einum degi síðan 21. júní síðastliðinn, 21 smit var staðfest þarlendis á síðasta sólarhring. Aldrei hafa fleiri dáið vegna veirunnar í Arizona fylki í Bandaríkjunum heldur en á síðasta sólarhring, þar hafa 147 fallið frá og 2.742 smit til viðbótar verið staðfest. 

Sjá lifandi streymi Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert