Önnur segir upp hjá greinadeild NYT

AFP

Bari Weiss, ritstjóri hjá greinadeild New York Times, sagði upp störfum í vikunni, en hún er önnur manneskjan sem hefur sagt upp störfum frá greinadeild blaðsins á síðustu vikum.

Í síðasta mánuði greindi mbl.is frá því að annar yfirmaður greinadeildar New York Times, James Bennett, hafi sagt upp í kjölfar þess að hafa birt grein eftir bandarískan öldungadeildarþingmann sem hvatti til þess að hernum yrði beitt gegn mótmælendum á landsvísu.

Í opnu uppsagnarbréfi á vefsíðu sinni, stílað á A.G. Sulzberger útgefenda blaðsins, segir Weiss að hún hafi orðið fyrir aðkasti af hálfu samstarfsfólks sín vegna stjórnmálaskoðana sinna, og að yfirmenn blaðsins hafi ekkert gert til að koma í veg fyrir það.

Weiss, sem lýsir sjálfri sér sem miðjusinnaðri, heldur því fram að vegna skoðana sinna hafi mannorð hennar verið svert á samskiptaforritum fyrirtækisins, og að samstarfsfólk hennar hafi margsinnis kallað hana lygara og rasista á samfélagsmiðlum vegna skrifa sinna.

Twitter sé hinn raunverulegi ritstjóri

Weiss var fengin til liðs við New York Times í kjölfar kosningar Donalds Trump í embætti Bandaríkjaforseta, en markmið blaðsins var að upphefja fjölbreyttari raddir á blaðsíðum New York Times, og komast í betri tengsl við breiðari hóp lesenda. Hún starfaði við yfirlestur og birtingu skoðanagreina, sérstaklega þeirra sem sneru að stjórnmálum og menningu.

Þá gagnrýnir Weiss harðlega að markmið blaðsins hafi snúist upp í andstæðu sína, og að menning blaðsins hafi þvert á móti lokast. Ritstjórnarstefna blaðsins sé að miklu leyti innblásin af Twitter, þar sem skoðanir og siðferði fámenns hóps er bergmálað í blaðinu.

„Í staðinn hefur mótast samstaða í fjölmiðlum, og kannski sérstaklega á þessu blaði; að sannleikurinn sé ekki ferli sameiginlegrar uppgötvunar, heldur rétttrúnaður sem aðeins fáir upplýstir aðilar vita, og starf þeirra eru að upplýsa alla aðra,“ skrifar Weiss í bréfi sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert