Bretland hefur sakað kínversk stjórnvöld um gróf mannréttindabrot í garð Úígúra, tyrkneskumælandi minnihlutahóps í Xinjiang héraði Kína. Þetta tilkynnti Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands. Sendiherra Kína í Lundúnum varar Breta við að fylgja í fótspor Bandaríkjamanna og beita viðskiptaþvingunum.
Meðferð yfirvalda á þjóðarbrotinu er sögð hörmuleg, en talið er að um milljón Úígúra sé haldið í svokölluðum „námsbúðum“ í Kína. Yfirvöld eru einnig sögð reyna að halda fjölgun Úígúra í skefjum með nauðungatilvistunum, trúarofsóknum, og þvinguðum ófrjósemisaðgerðum.
Raab kallar meðferð kínverskra yfirvalda ógeðfeld mannréttindabrot. „Þetta minnir á eitthvað sem við höfum ekki séð í mjög langan tíma, og það frá meðlimi alþjóðasamfélagsins sem vill láta taka sig alvarlega,“ sagði Raab í viðtali við BBC.
„Við viljum jákvætt samband við Kína, en við sjáum ekki hegðun eins og þessa án þess að gagnrýna hana.“
Ummæli Raab koma í kjölfar núnings á milli Bretlands og Kína, m.a. vegna ákvörðunar breskra stjórnvalda um að banna fjarskiptafyrirtækjum í landinu að nota búnað frá kínverska fjarskiptafyrirtækinu Huawei við uppbyggingu á 5G-neti í landinu frá og með áramótum.
Bandaríkin hafa einnig beitt viðskiptaþvingunum vegna meðferðar kínverskra yfirvalda á Úígúrum. Einnig kemur til greina að setja ferðabann á alla félaga kínverska Kommúnistaflokksins og fjölskyldur þeirra vegna málsins.
Sendiherra Kína í Lundúnum hefur þó sagt að Kína muni svara í sömu mynt fylgi Bretar fordæmi Bandaríkjamanna og hefji að beita viðskiptaþvingunum gegn Kína.
„Við trúum ekki á einhliða viðskiptaþvinganir,“ segir Liu Xiaoming, sendiherra Kína í Lundúnum. „Við teljum að aðeins Sameinuðu þjóðirnar hafi heimild til að beita slíkum þvingunum.“
„Ég tel að Bretland ætti að hafa sína eigin utanríkisstefnu, í staðin fyrir að dansa í takt við Bandaríkjamenn, líkt og gerðist í Huawei-deilunni,“ bætir Xiaoming við.