Ekkert samkomulag í Brussel

Angela Merkel Þýskalandskanslari og Emmanuel Macron Frakklandsforseti á fundinum í …
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Emmanuel Macron Frakklandsforseti á fundinum í gær. Sóttvarnir eru í hávegum hafðar í Brussel. AFP

Ekk­ert sam­komu­lag er í höfn á leiðtoga­fundi Evr­ópu­sam­bands­ins sem stend­ur yfir í Brus­sel. Á fund­in­um freista leiðtog­ar aðild­ar­ríkj­anna 27 þess að ná sam­an um fyr­ir­komu­lag svo­nefnds björg­un­ar­pakka  til stuðnings þeim ríkj­um sem verst hafa farið út úr kór­ónu­veiruf­ar­aldr­in­um. Upp­haf­leg til­laga fram­kvæmda­stjórn­ar sam­bands­ins hljóðaði upp á 750 millj­arða evra, sem deilt yrði til ríkja ým­ist í formi láns eða styrkja.

Djúp­stæður ágrein­ing­ur rík­ir milli leiðtoga ríkja í suður­hluta álf­unn­ar og hóps ríkja úr norður­hlut­an­um, Hol­lands, Svíþjóðar, Dan­merk­ur, Finn­lands og Aust­ur­rík­is, sem hafa viljað fara hæg­ar í sak­irn­ar, minnka aðgerðarpakk­ann og skil­yrða lán­veit­ing­ar við það að sam­bandið hafi stjórn á því hvernig fénu er varið.

Fund­ur­inn hófst á föstu­dag og átti hon­um að ljúka í gær, sunnu­dag. Þar sem eng­in niðurstaða ligg­ur fyr­ir verður hon­um fram­haldið í dag og hefst fund­ur klukk­an tvö að ís­lensk­um tíma. Er þetta nú lengsti leiðtoga­fund­ur sam­bands­ins frá ár­inu 2000 þegar fund­ur í Nice stóð í fimm daga.

„Ég get ekki enn sagt til um það hvort við kom­umst að niður­stöðu. Það er mik­ill vel­vilji hér en líka ólík sjón­ar­mið,“ sagði Ang­ela Merkel Þýska­landskansl­ari við blaðamenn í höfuðstöðvum leiðtogaráðsins í Brus­sel í gær.

Er það síst orðum ofaukið að sjón­ar­miðiðin séu ólík. Leiðtog­ar suðrænni ríkja banda­lags­ins hafa kallað eft­ir sam­stöðu og gagn­rýnt þá sem leggj­ast gegn sam­komu­lag­inu. Sagði Giu­seppe Conte, for­sæt­is­ráðherra Ítal­íu, að Evr­ópa væri „kúguð af hinum spar­sömu ríkj­um (e. fru­gals)“ og vísaði þá til Hol­lands, Svíþjóðar, Dan­merk­ur, Finn­lands og Aust­ur­rík­is sem hafa tekið að sér aðhalds­hlut­verk inn­an ráðsins.

Þá hef­ur Vikt­or Or­ban, for­sæt­is­ráðherra Ung­verja­lands, sakað Mark Rutte, for­sæt­is­ráðherra Hol­lands, um að hafa horn í síðu Ung­verja og hans sjálfs. „Ég veit ekki hver er ástæða þess að hol­lenski for­sæt­is­ráðherr­ann hat­ar mig eða Ung­verja­land, en árás­ir hans eru svo ákaf­ar og hann hef­ur gert það skýrt að í hans aug­um virði Ung­verja­land ekki rétt­ar­ríkið og eigi því skilið að vera refsað fjár­hags­lega,“ sagði Or­ban. Rutte hef­ur ein­mitt látið hafa eft­ir sér að virðing fyr­ir rétt­ar­rík­inu sé eitt af þeim stóru mál­um sem þurfi að tryggja áður en samið verður um nokkr­ar lán- eða styrk­veit­ing­ar.

Charles Michel, forseti leiðtogaráðsins, fundar með leiðtogum Ungverjalands, Póllands, Tékklands …
Char­les Michel, for­seti leiðtogaráðsins, fund­ar með leiðtog­um Ung­verja­lands, Pól­lands, Tékk­lands og Slóvakíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert