Þrír ferðamenn greindust með kórónuveiruna við komuna til Færeyja í gær. Eru greind smit í eyjunum því orðin 191.
Þetta eru fyrstu virku smitin sem greinast í Færeyjum frá því í apríl en smitin greindust við landamæraskimun á flugvellinum í Vági. Ferðamennirnir hafa allir verið settir í sóttkví að því er segir í yfirlýsingu frá heilbrigðisráðuneyti Færeyja.
Rétt eins og hér á landi eru farþegar skimaðir við komuna til eyjanna. Um 28.000 sýni hafa verið tekin í Færeyjum frá því kórónuveirufaraldurinn fór á stjá, eða sem nemur um 56% af íbúafjölda eyjanna. Tvær vikur eru liðnar frá því smit greindist í Færeyjum en það reyndist síðar óvirkt.