Öskurherferðin vekur athygli erlendis

Öskrin eiga að laða vekja athygli útlendinga á áfangastaðnum Íslandi.
Öskrin eiga að laða vekja athygli útlendinga á áfangastaðnum Íslandi. mbl.is/Sigurður Bogi

Markaðsherferð Íslandsstofu sem gengur út á að fá erlenda ferðamenn til að öskra frá sér streitu, og koma til landsins í þeim erindagjörðum, er þegar farin að vekja athygli erlendis. Slagorð herferðarinnar er Let It Out eða Losaðu þig við það, og á að sögn að sækja innblástur til kenninga sálfræðinga um streitulosandi áhrif þess að öskra af lífs og sálarkröftum.

Hægt er að taka upp öskur gegnum tölvu eða síma á heimasíðu átaksins, en sjö hátölurum verður víðan komið fyrir víðsvegar um landið til að koma öskrunum til skila.

Skiptar skoðanir hafa verið á ágæti herferðarinnar en hún virðist þó skila tilætluðum árangri. Í það minnsta hefur kynningarmyndbandið hlotið 2,3 milljónir spilana á Youtube á þeim fimm dögum sem liðnir eru frá því það fór í loftið.

Þá hefur verið fjallað um herferðina í erlendum miðlum, svo sem BBC, Telegraph, Sky og CNN. Herferðin var einnig tekin fyrir í þættinum Today Show í Bandaríkjunum.

Öskurherferðin er hluti af markaðsátaki Íslandsstofu sem nefnist Ísland — saman í sókn, hér heima fyrir. Hún er unnin af alþjóðlegu auglýsingastofunni M&C Saatchi, en franska fyrirtækið Havas Media sér um birtingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert