Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í dag að hann hygðist senda „bylgju“ alríkislögreglumanna til bandarískra borga í herferð gegn glæpum.
Trump segist „ekki hafa haft val“ um annað en að senda fleiri hundruð alríkislögreglumanna til Chicago, Albuquerque, Kansas-borgar og fleiri borga undir stjórn demókrata.
Alríkislögreglumenn eru nú þegar til staðar í Portland í Oregon-ríki, en borgarstjóri Portland hefur sagt að viðvera þeirra hafi aðeins gert illt verra.
Samkvæmt BBC hafa alríkislögreglumenn verið sakaðir um að keyra á ómerktum bílum og ekki borið nein auðkenni á búningum sínum í Portland.
Aðgerðarsinnar í Portland hafa, ásamt aðgerðarsinnum víðsvegar um Bandaríkin og heiminn allan, mótmælt valdbeitingu lögreglu síðan George Floyd, svartur Bandaríkskur karlmaður, var drepinn í haldi lögreglu 25. maí síðastliðinn.