Almenningur fær aðgang að dómsskjölunum

Ghislaine Maxwell er ákærð fyrir hlutdeild í skipulegum brotum Epstein.
Ghislaine Maxwell er ákærð fyrir hlutdeild í skipulegum brotum Epstein. AFP

Alríkisdómari úrskurðaði í dag að dómsskjöl í máli Virginiu Roberts Giuffre gegn Ghislaine Maxwell, frá 2015 og lauk með sáttagerð árið 2017, verði gerð opinber. Lögmenn Maxwell hafa viku til að áfrýja úrskurðinum og koma í veg fyrir að almenningur geti nálgast skjölin.

Meðal gagna í málinu vitnisburður Maxwell þar sem hún segist ekki hafa vitað hvort að barnaníðingurinn Jeffrey Epstein hafi lagt á ráðin um að borga stúlkum undir lögaldri fyrir að stunda kynlíf með sér. Maxwell er sökuð um að hafa tekið þátt í skipulegum brotum Epstein.

Dómarinn sagði upplýsingarétt almennings vega þyngra en rétt Maxwell „til að forðast óþægindi.“ CNN greinir frá.

Maxwell var ákærð fyrr í þessum mánuði fyrir að ráða ungar stúlkur í störf hjá Epstein og koma þeim í aðstæður (e. groom) þar sem þær voru á endanum beittar kynferðislegu ofbeldi. Hún hefur lýst sig saklausa af ákærunni en verður í fangelsi á meðan réttarhöld standa yfir.

Í vitnisburði sínum vegna málsins frá árinu 2015 neitaði hún einnig að hafa nuddað stúlku undir lögaldri. „Ég veit ekki til þess að Epstein hafi stundað kynlíf með öðrum en mér á meðan við vorum saman,“ sagði hún.

Þegar hún var spurð hvort að Epstein hafi með skipulegum hætti ráðið stúlkur undir lögaldri til starfa hjá sér í þeim tilgangi að misnota þær sagði hún: „Ég hef ekki hugmynd um hvað þú ert að tala.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert