Evrópuþingið ósátt við niðurskurð

Ursula von der Leyen, Charles Michel og David Sassoli, forseti …
Ursula von der Leyen, Charles Michel og David Sassoli, forseti Evrópuþingsins. AFP

Eftir strangar samningaviðræður leiðtoga Evrópusambandsríkja í Brussel um helgina, þar sem samið var um fjárhagsáætlun Evrópusambandsins til næstu sjö ára og nýjan 750 milljarða evra björgunarsjóð, er málið nú á borði Evrópuþingsins. Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, hvatti í gær þingmenn til að samþykkja samkomulagið.

Eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu var ljóst að annaðhvort þyrfti að skera niður í fjárlögum sambandsins eða auka framlag hvers ríkis. Útkoman var meðalvegurinn, þar sem útgjöld sumra ríkja aukast en ekki svo að það vegi upp á móti tekjutapinu. 

Útgjöld Evrópusambandsins verða 1.076 milljarðar evra næstu sjö árin, eða um 153 milljarðar evra á ári. Til samanburðar voru útgjöldin 168 milljarðar evra í ár.

Tilbúin að neita að samþykkja

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, viðurkenndi fyrir Evrópuþingmönnum í gær að erfitt væri að kyngja niðurskurðinum sem leiðtogar aðildarríkjanna komu sér saman um á maraþonfundi helgarinnar. „Já, okkur tókst að foðast enn meiri niðurskurð, líkt og sum aðildarríki vildu, en þessari fjárhagsáætlun er erfitt að kyngja. Og ég veit að þingheimi finnst það sama,“ sagði hún.

Í ályktun, sem fréttamiðillinn Euractiv hefur undir höndum en verður kosið um á þinginu í dag, er óánægju lýst með niðurskurðinn og tekið fram að þingið sé tilbúið að bíða með að samþykkja fjárhagsáætlunina „þar til fullnægjandi samkomulagi er náð“. Evrópuþingmenn verði ekki „neyddir til að samþykkja slæman samning“.

Ályktunin reiðir sig á stuðning helstu flokkabandalaga á Evrópuþinginu, bandalagi hægriflokka (EPP), jafnaðarmenn, frjálslynda (Renew Europe), græningja og sameinaða vinstribandalagið (UL).

Þingmenn hafa löngum viljað að Evrópusambandið fái eigin skattstofn, en fjárútlát bandalagsins er nú aðeins fjármögnuð með beinum framlögum frá aðildarríkjum. Slíkar breytingar eru ekki auðsóttar enda þyrftu þær samþykki leiðtoga allra aðildarríkja. Tilraunir til að koma á samevrópskum netskatti, 3% skatti sem lagður yrði á öll fyrirtæki með tekjur yfir 750 milljónir evra á ári, náðu til að mynda ekki fram að ganga á sínum tíma vegna mótstöðu þriggja landa, Írlands, Svíþjóðar og Finnlands.

Hugmyndir eru sömuleiðis uppi um samevrópskan kolefnisskatt, en tillögur eru skammt á veg komnar, verða lagðar fyrir leiðtogaráðið á fyrri hluta næsta árs og gætu sennilega ekki komið til framkvæmda fyrr en 2023. Þingið vill hins vegar sjá tillögurnar koma til framkvæmda sem fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka