Lýsa andlegu og líkamlegu ofbeldi

Mary Anne Monckton.
Mary Anne Monckton. AFP

Fyrrverandi fimleikakonur í Ástralíu hafa undanfarna daga birt færslur á samfélagsmiðlum þar sem þær lýst líkamlegu og andlegu ofbeldi sem þær urðu fyrir þegar þær æfðu fimleika. Að minnsta kosti ein þeirra reyndi að fremja sjálfsvíg vegna ofbeldisins. Ekki er um kynferðislegt ofbeldi að ræða líkt og læknir bandaríska landsliðsins í fimleikum, Larry Nassar, var fundinn sekur um fyrir tveimur árum.

Ástæðan fyrir því að þær ákváðu að stíga fram nú er ný bandarísk heimildarmynd Athlete A þar sem fjallað er um rannsóknina á Nassar en hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir brot gegn á þriðja hundrað fimleikastúlkum. 

Í kjölfar útgáfu myndarinnar hafa fjölmargt fimleikafólk í ólíkum löndum ákveðið að segja sögu sína. Fyrr í mánuðinum setti breska fimleikasambandið af stað rannsókn á ásökunum um einelti og misnotkun í íþróttagreininni þar í landi. 

Ástralska fimleikasambandið sendi frá sér opið bréf í gærkvöldi þar sem þeim sem stigið hafa fram og sagt sögu sína er þakkað fyrir að upplýsa um ofbeldið. 

Ein þeirra, Chloe Gilliland, lýsir því hversu kvíðin, áhyggjufull og þunglynd hún hafi verið á þessum tíma, það er þegar hún var unglingur en hún fór með sigur af hólmi á sambandsleikunum í Melborune árið 2006. „Þegar ég var 17 ára fannst mér auðveldara að binda endi á líf mitt en að verða sú sem þeir vildu að ég yrði.

Chloe Sims (Gilliland).
Chloe Sims (Gilliland). AFP

Gilliland segir að hún hafi glímt við átröskun á þessum tíma á sama tíma og þjálfararnir sögðu henni stöðugt að hún væri of þung. Ef þeir voru ekki að tjá sig um holdafar mitt þá var gáfnafar mitt segir hún. Annað hvort var hún of feit eða of heimsk.

Mary-Anne Monckton, silfurverðalaunahafi á Samveldisleikunum í Glasgow 2014 segir að hún hafi hingað til ekki þorað að segja sögu sína en nú sé nóg komið. Nauðsynlegt sé að þetta komi fram. Þessi misnotkun (líkamleg, andleg og tilfinningaleg) verður að hætta segir hún. Moncton segist hafa upplifað líkamssmánun, hætt að borða, það hafi verið öskrað á hana þangað til hún fór að gráta og þvinguð til að gera hluti sem hún hafi hvorki haft líkamsburði né getu til að framkvæma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert