Tíu karlmenn voru í dag fundnir sekir um hópnauðgun fyrir utan skemmtistað í þýsku borginni Freiburg árið 2018. Árásin vakti mikla athygli og varð kveikja að mótmælum og bylgju útlendingahaturs í landinu en átta af 11 ákærðum í málinu eru flóttamenn frá Sýrlandi.
Sá sem var talinn höfuðpaurinn í málinu fékk fimm og hálfs árs fangelsisdóm fyrir nauðgunina, sem stóð yfir í meira en tvær klukkustundir. Aðrir voru dæmir í þriggja til fjögurra ára fangelsi og einn var sýknaður.
Stúlkunni sem var nauðgað var byrlað ólyfjan áður en ráðist var á hana í gróðri fyrir utan skemmtistaðinn. Hún var 18 ára gömul þegar árásin átti sér stað.
Átta af þeim 11 sem voru ákærðir í málinu voru flóttamenn frá Sýrlandi og þótti mörgum, sér í lagi stuðningsmönnum stjórnmálaflokksins AfD, það bera vott um misheppnaða stefnu Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í útlendingamálum. Aðrir gerendur voru frá Írak, Afganistan og Þýskalandi.
Sama ár og árásin átti sér stað var flóttamaður frá Afganistan dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að nauðga og myrða konu í sömu borg, Freiburg. Martin Horn, borgarstjóri Freiburg, sagði hópnauðgunina hafa gert íbúa skelfingu lostna en hrósaði meirihluta borgarbúa fyrir að dæma ekki alla flóttamenn fyrir gjörðir nokkurra.