„Ég er líka dóttir einhvers“

Alexandria Ocasio-Cortez .
Alexandria Ocasio-Cortez . AFP

Þingkona demókrata í fulltrúadeild þingsins, Alexandria Ocasio-Cortez frá New York, hafnaði í gær afsökunarbeiðni starfsbróður hennar á þingi úr röðum repúblikana en hann er sakaður um að hafa hreytt í hana fúkyrðum á tröppum þinghússins.  

Ocasio-Cortez, eða AOC líkt og hún er yfirleitt kölluð, segir að Ted Yoho, sem er frá Flórída, hafi raðað saman fúkyrðum í hennar garð á meðan hann beindi fingri að andliti hennar. „Hann sagði mig viðbjóð, hann sagði mig geðveika og að ég væri ekki með öllum mjalla,“ sagði AOC meðal annars í tæplega 10 mínútna ræðu sem hún flutti í gær. „Fyrir framan fréttamenn, kallaði fulltrúardeildarþingmaðurinn Yohe mig og ég hef beint eftir – helvítis tík,“ sagði hún.

Ocasio-Cortez, sem er yngsti þingmaðurinn á þjóðþingi Bandaríkjanna, segist ekki vera á höttunum eftir afsökunarbeiðni heldur væri framkoma hans hluti af stærra vandamáli þegar kemur að viðhorfi í garð kvenna.

Ted Yoho.
Ted Yoho. AFP

Hún segir atvik sem þessi vera hluti af mynstri og allar konur þurfi að takast á við þetta. Þar á meðal hún sjálf. Þetta sé ekkert nýtt og það sé vandamálið. Það þyki eðlilegt að beita ofbeldisfullu orðbragði í garð kvenna og að þetta sé hluti af valdbeitingarkerfi. Hún hafi sjálf ekki aðeins orðið fyrir þessu af hálfu þingmanna Repúblikanaflokksins. „Heldur hafi forseti Bandaríkjanna sagt henni að fara heim til annars lands í fyrra þar sem ég eigi ekki heima í Bandaríkjunum.“

Ocasio-Cortez er fædd og uppalin í New York borg en ættuð frá Púertó Ríkó.

Yoho baðst afsökunar á að hafa verið dónalegur í samtali við starfsfélaga frá New York en neitar að hafa kallað hana niðrandi nöfnum.

AOC segir að hún hafi ekki ætlað að gera neitt í málinu fyrr en Yoho hafi beðist afsökunar með því að vísa í eiginkonu sína og dætur í ræðunni á miðvikudag. 

„Herra Yoho talaði um að hann ætti eiginkonu og tvær dætur. Ég er tveimur árum yngri en yngsta dóttir Yoho. Ég er líka dóttir einhvers. Faðir minn heitinn þarf ekki, til allar hamingju, að upplifa hvernig herra Yoho kemur fram við dóttur hans.“

Hún segir að móðir hennar hafi þurft að horfa upp á framkomu Yoho við hana í sjónvarpi. „Og ég er hér því að ég verð að sýna foreldrum mínum að ég sé dóttir þeirra og að þau hafi ekki alið mig upp til að þurfa að þola skítkast frá körlum.“ 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert