Fékk hæli eftir 2.269 daga í haldi

Behrouz Boochani hefur fengið hæli á Nýja-Sjálandi.
Behrouz Boochani hefur fengið hæli á Nýja-Sjálandi. Wikipedia/File:Behrouz Boochani by Hoda Afshar.jpg

Behrouz Boochani, sem er Kúrdi frá Íran, fékk í gær hæli á Nýja-Sjálandi en áður en hann kom til landsins hafði hann hafði verið í haldi ástralskra yfirvalda í sex ár eða 2.269 daga. Boochani hefur meðal annars hlotið verðlaun fyrir bók sem hann skrifaði á farsíma sinn í fangabúðum Ástrala. Boochani fagnaði 37 ára afmæli í gær.

Behrouz Boochani hefur verið á Nýja-Sjálandi frá því í nóvember en þar sótti hann um alþjóðlega vernd sem flóttamaður eftir að hafa tekið þátt í bókmenntahátíð þar í landi.

Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun Nýja-Sjálands þá fellur Boochani undir skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna um flóttafólk. Ekki verði upplýst frekar um umsókn hans enda einkamál. 

Frétt New York Times

Boochani var að vonum ánægður með niðurstöðu yfirvalda og heitir því að halda áfram að berjast fyrir réttindum flóttafólks frá heimalandinu. Hann ætlar að sækja um heimild til að setjast að á Nýja-Sjálandi til frambúðar.

Behrouz Boochani tók þessa mynd frá búðunum á Manus-eyju.
Behrouz Boochani tók þessa mynd frá búðunum á Manus-eyju. AFP

„Nú þegar ég hef fengið staðfestingu á hver framtíð mín verður, sem er gott, er erfitt að njóta til fulls og fagna á sama tíma og áströlsk stjórnvöld hneppa fólk í varðhald á óréttlátan hátt í Port Moresby, Nauru og Ástralíu,“ segir í yfirlýsingu frá Boochani.  

Boochani starfar nú við rannsóknir við Canterbury háskóla í Christchurch á Suðureyju. Hann skrifaði bókina „No Friend But The Mountains" á samskiptaforritið WhatsApp þegar hann var í haldi í búðum ástralskra yfirvalda á eyjunni Manus í Papúa Nýju-Gíneu. Búðunum á eyjunni hefur nú verið lokað en Boochani var fluttur þangað eftir að hafa verið bjargað af sökkvandi bát árið 2013 í landhelgi Ástralíu.

Bókin, sem kom út árið 2018m hefur hlotið fjölmörg verðlaun, þar á meðal helstu bókmenntaverðlaun Ástralíu, Victorian-verðlaunin.

Frétt BBC

Talskona Græningja á Nýja-Sjálandi í mannréttindamálum, Golriz Ghahraman, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að niðurstaðan sýni svart á hvítu að í heimalandi hennar fái réttlæti og mannúð að njóta sín en hún hefur lengi staðið við bakið á baráttu Boochani fyrir mannúðlegri meðferð á flóttafólki og hælisleitendum.

Fjölmargir hafa látið lífið vegna bágra aðstæðna á Náru og …
Fjölmargir hafa látið lífið vegna bágra aðstæðna á Náru og Manus-eyju. AFP

„Fólk sem flýr pyntingar og saksókn vegna trúar, kynþáttar og pólitískra afskipta á skilið að eignast heimili, það á skilið vernd,“ segir hún og bætir við. „Við bjóðum Behrouz hjartanlega velkominn.“

Fleiri taka í svipaðan streng, þar á meðal starfsfólk Amnesty International og baráttufólk fyrir mannréttindum. Sjá nánar á vef ABC.

Boochani flúði til Indónesíu frá Íran árið 2013 eftir að herinn gerði húsleit á kúrdíska tímaritinu sem hann starfaði hjá sem blaðamaður. Sökuðu yfirvöld tímaritið um að birta greinar andsnúnar stjórnvöldum og var þar vísað til greinaskrifa Boochani fyrir tímaritið. Hann greiddi smyglurum fyrir að koma sér til Ástralíu en flóttinn endaði í búðum yfirvalda á Manus eftir að hafa verið bjargað frá drukknun. 

AFP

Boochani hefur fengið dvalar- og atvinnuleyfi í eitt ár á Nýja-Sjálandi og getur sótt um dvalarleyfi til frambúðar. Það er undanfari ríkisborgararéttar að því er segir í umfjöllun Guardian.

Þegar kórónuveirufaraldurinn geisaði kom fólk með gjafir og blóm á heimili hans og eins er hann ítrekað stöðvaður á götu úti af fólki sem hefur áhuga á að spjalla við hann. „Fólki er annt um aðra á Nýja-Sjálandi. Það lét hart mæta hörðu þegar einhverjir stjórnmálamenn reyndu að skrýmslavæða mig.Fólk sagði að það sætti sig ekki við hatursorðræðu af þessu tagi,“ segir Boochani í viðtali við Guardian í dag.

Hann segir að Christchurch sé góður staður til að vera á þrátt fyrir þá skelfilegu atburði sem gerðust í mars í fyrra þegar ástralskur vígamaður framdi hryðjuverk í tveimur moskum. 

Boochani starfar að verkefnum með nýsjálenskum og áströlskum háskólum, Canterbury auk háskóla í Melbourne og Nýju Suður-Wales. Rannsóknir hans snúa að loftlagsmálum og þvinguðum búferlaflutningum. Eins vinnur hann að smásagnasafni. 

Flóttamenn og hælisleitendur við flóttamannabúðirnar á Manus.
Flóttamenn og hælisleitendur við flóttamannabúðirnar á Manus. AFP

Þegar Boochani var í haldi á Manus og í Port Moresby varð hann vitni að því að vinir hans voru skotnir, stungnir og myrtir af vörðum. Sá aðra deyja af völdum læknamistaka og horfði á enn aðra líða sálarkvalir og jafnvel binda endi á líf sitt vegna þeirra. 

Hann var sjálfur pyntaður dögum saman í einangrunarhluta búðanna á Manus. Hann var settur í fangaklefa í átta daga fyrir að birta fréttir af hungurverkfalli í flóttamannabúðunum sem lögregla á Papúa Nýju-Gíneu batt enda á með því að beita hörku.

Þrátt fyrir mótlætið hélt hann áfram fréttaflutningi af stöðu mála á búðunum, að því er segir í frétt Guardian í dag.

„Ég er enn blaðamaður hér,“ sagði hann í viðtali við Guardian árið 2015. „Það er starfið mitt og skylda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka