Stórkostlegt ofmat á dánartíðni veirunnar

Stuðningur við aðgerðir ríkisstjórna dregst saman, en mat almennings á …
Stuðningur við aðgerðir ríkisstjórna dregst saman, en mat almennings á útbreiðslu veirunnar er í litlu samræmi við opinberar tölur. AFP

Almenningur ofmetur stórlega útbreiðslu og dánartíðni vegna kórónuveirunnar. Þetta er niðurstaða könnunar sem ráðgjafarfyrirtækið Kekst CNC hefur framkvæmt í sex löndum, Þýskalandi, Bretlandi, Svíþjóð, Japan, Frakklandi og Bandaríkjunum.

Í Svíþjóð og Bretlandi mátu þátttakendur sem svo, að meðaltali, að um 6-7% þjóðarinnar hefðu látið lífið af völdum veirunnar, en það er um hundraðfalt meira en raunverulegt hlutfall. Ofmatið var enn meira í Bandaríkjunum, þar sem þáttakendur töldu um tíu prósent þjóðarinnar hafa látist úr veirunni, en það jafngildir um 33 milljónum manns eða tvöhundruðfalt það sem opinberar tölur segja til um. Þá töldu Þjóðverjar að um 300-falt fleiri hefðu dáið. 

Stuðningur við aðgerðir stjórnvalda minnkar

Stuðningur við störf ríkisstjórna í baráttunni gegn veirunni hefur einnig fallið hratt að undanförnu.

Í Bandaríkjunum, þar sem flest tilfelli og dauðsföll hafa verið skráð á heimsvísu, fellur stuðningur við störf alríkisstjórnarinnar um sex prósentustig en 44% aðspurðra segjast þar ósátt með aðgerðir stjórnvalda í baráttunni.

Í Svíþjóð, þar sem hófstilltari aðgerðum hefur verið beitt í baráttunni við veiruna en víðast annars staðar, er nettóánægja með störf Stefans Löfven nú hlutlaus, þ.e. álíka margir eru ánægðir og óánægðir, en fyrir mánuði síðan voru 7 prósentustigum fleiri ánægðir en óánægðir. Í Bretlandi segist rétt ríflega þriðjungur þátttakenda vera ánægður með aðgerðirnar, en það er þriggja prósentustiga lækkun frá könnun sem framkvæmd var í síðasta mánuði.

„Í flestum ríkjanna er stuðningur við ríkisstjórnir á niðurleið,“ segir í úttektinni, sem náði einnig til Svíþjóðar, Frakklands, Þýskalands og Japans. Frakkland er þó áberandi undantekning, en þar í landi hefur stuðningur við aðgerðir ríkisstjórnarinnar hækkað um 6 prósentustig frá síðasta mánuði og mælist nú 59%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert