Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, mun verja 10 milljónum punda í herferð gegn ofþyngd, sem mun meðal annars felast í banni við skyndibitaauglýsingum, í kjölfar þess að hann veiktist alvarlega, að hluta til vegna þyngdar sinnar.
Til stendur að Johnson kynni herferðina, sem hefur fengið heitið Betri heilsa, á morgun, mánudag, en með herferðinni verða læknar hvattir til þess að ávísa hjólreiðum fyrir skjólstæðinga sína í ofþyngd og veðrður auk þess ráðist í átak við fjölgun hjólreiðastíga.
Þá verða auglýsingar skyndibitastaða í sjónvarpi bannaðar fyrir klukkan 21 á kvöldin, samkvæmt heimildum breskra fjölmiðla.
„Covid-19 hefur vakið okkur gagnvart skamm- og langtímaáhættu þess að vera í ofþyngd, og forsætisráðherrann er staðráðinn í að við verðum að nota tímann til þess að verða heilsuhraustari, virkari og borða heilsusamlegra fæði,“ er haft eftir talsmanni stjórnvalda.
Johnson hefur sjálfur átt við þyngdarvandamál að stríða, en hann var lagður inn á gjörgæslu þegar hann smitaðist af kórónuveirunni í vor, og er það að hluta til þyngdar hans vegna sem hann er talinn hafa veikst svo alvarlega.