Boris: „Ég var allt of þungur“

Boris Johnson fyrir utan þinghúsið í síðustu viku.
Boris Johnson fyrir utan þinghúsið í síðustu viku. AFP

Veitingastaðir munu þurfa að sýna kaloríufjölda máltíða á matseðlum sínum í Bretlandi, samkvæmt áformum ríkisstjórnarinnar sem kynnt voru í morgun. Hyggst hún með þessu ráðast gegn offituvanda landsins, sem þykir enn brýnna í ljósi faraldurs kórónuveirunnar.

Í áformunum felst einnig bann við „tveir fyrir einn“-tilboðum á óhollum matvælum og auglýsingum skyndibita fyrir klukkan níu á kvöldin.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að átta prósent þeirra sem leggja þurfti inn á gjörgæsludeild sökum sjúkdómsins voru sjúklega feit, á sama tíma og slíkir einstaklingar standa undir minna en þremur prósentum af mannfjölda samfélagsins.

Þyngdin farið upp og niður

„Að léttast er erfitt en með nokkrum litlum breytingum getur okkur öllum liðið betur og orðið heilbrigðari,“ segir forsætisráðherrann Boris Johnson í myndbandi sem birt hefur verið á Twitter til að fylgja áformum yfirvalda úr hlaði.

Játar hann að hafa átt í vanda með eigin þyngd og hún hafi farið upp og niður. Hann segist hafa byrjað að hreyfa sig meira eftir að hafa veikst alvarlega af kórónuveirunni fyrr á þessu ári.

„Ég vil ekki koma með einhverjar óhóflegar yfirlýsingar því ég er í raun bara rétt byrjaður að einbeita mér að því, en ég er að minnsta kosti steini (e. stone ≈ 6,35 kg) léttari. Ég er meira en steini léttari,“ segir ráðherrann.

„En þegar ég fór inn á gjörgæsludeild, þegar ég var virkilega veikur, var ég allt of þungur,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert