Dánartíðni hríðfellur á Indlandi

Narendra Modi, forsætisráðherra landsins.
Narendra Modi, forsætisráðherra landsins. AFP

Dánartíðni vegna kórónuveirunnar á Indlandi hefur dregist saman svo um munar undanfarinn mánuð. Þá hefur þeim sem náð hafa sér af sjúkdómnum fjölgað mjög mikið yfir sama tímabil. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu þar í landi. 

Um miðjan júnímánuð var batatíðnin rétt um 53%, sem er umtalsvert lægri tíðni en raunin er í dag. Að því er segir í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins er batatíðnin nú um 64%. Þá er dánartíðnin rétt um 2,25% samanborið við 3,33% fyrir um mánuði. 

„Indland heldur áfram að vera eitt þeirra landa sem er með einna lægsta dánartíðni,“ kemur fram í tilkynningunni. Eru öflugar sóttvarnir í bland við víðtækar skimanir lykillinn að árangri Indverja er haft eftir stjórnendum heilbrigðisstofnana. Þá hefur verið tryggt að spítalar verði ekki undir of miklu álagi, en þannig er fólk látið halda sig eins lengi heima og mögulegt er. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert