„Ég hef aldrei verið njósnari“

Kylie Moore-Gilbert.
Kylie Moore-Gilbert. AFP

Bresk-áströlsk kona sem afplánar tíu ára fangelsisdóm í Íran fyrir njósnir hefur verið flutt í illræmt fangelsi í eyðimörkinni samkvæmt upplýsingum frá írönsku mannréttindabaráttufólki. 

BBC greinir frá þessu.

Kylie Moore-Gilbert, sem kennir við Melbourne-háskóla, hefur setið í fangelsi í Íran frá því í september 2018. Hún hefur alla tíð neitað ásökunum á hendur sér. Að sögn vina hefur hún þurft að sofa á gólfinu í fangaklefa í Teheran síðan hún var fangelsuð. 

Henni hefur ítrekað verið haldið í einangrun í fangelsinu í Teheran en nú hefur hún verið flutt til innan fangelsismálakerfisins í Qarchak-fangelsið.

Fréttamaður BBC, Caroline Hawley, segir í frétt BBC að pólitískir íranskir fangar séu stundum sendir í Qarchak-fangelsið en að sögn þeirra sem þar hafa dvalið eru aðstæður þar ömurlegar. 

Moore-Gilbert, sem er sérfræðingur í stjórnmálum Mið-Austurlanda, sagði við íranskan baráttumann fyrir mannréttindum í síma í vikunni að hún hafi ekki fengið að tala við fjölskyldu sína í mánuð.

Reza Khandan, eiginmaður mannréttindalögfræðingsins Nasrin Sotoudeh, sem einnig er í fangelsi, skrifar á Facebook að líðan Moore-Gilbert sé afar slæm. Hún hafi tjáð honum að hún gæti ekki borðað og glími við mikla vanlíðan. Hún óttist um framhaldið.

Í bréfum sem smyglað var út úr Evin-fangelsinu í Teheran í janúar sagðist Moore-Gilbert aldrei hafa starfað sem njósnari og að hún óttist um geðheilsu sína. Hún hafi aftur á móti hafnað beiðni íranskra yfirvalda um að gerast njósnari þeirra. „Ég er ekki njósnari. Ég hef aldrei verið njósnari og ég hef nákvæmlega engan áhuga á því að njósna fyrir samtök í neinu landi.“

Moore-Gilbert, sem nam við Cambridge, var á áströlsku vegabréfi þegar hún var handtekin á flugvellinum í Teheran 2018. Þá var hún á heimleið eftir ráðstefnu í Íran.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert