Leit stendur yfir í garði í Hannover í Þýskalandi og tengist leitin hvarfi Madeleine McCann að sögn saksóknara. Um er að ræða garðland sem borgaryfirvöld úthluta íbúum. Samkvæmt þýskum fjölmiðlum er fjölmennt lögreglulið að störfum en garðlandið er skammt frá þeim stað þar sem Christian Brückner bjó á sínum tíma.
Brückner afplánar nú dóm í Þýskalandi en hann er grunaður um að hafa átt aðild að hvarfi Madeleine úr hótelíbúð sem hún dvaldi í ásamt fjölskyldu sinni vorið 2007 í Portúgal.
Lögregla hefur einnig verið við leit í Linden-skurðinum að því er fram kemur á vefnum Haz.de.
Ekki er langt síðan portúgalska lögreglan leitaði á stöðum skammt frá þeim stað þar sem Þjóðverjinn Christian Brückner dvaldi í húsbíl um skeið árið 2007. Meðal annars leitaði lögreglan með aðstoð kafara í brunnum á svæðinu.
Rannsókn á hvarfi Madeleine hófst að nýju í júní þegar þýsk yfirvöld greindu frá því að Brückner væri grunaður um aðild að hvarfinu. Fram hefur komið að Þjóðverjinn, sem er 43 ára gamall, hafi sagt öðrum manni þar sem þeir sátu á bar að hann hefði átt aðild að hvarfi Madeleine. Eins hefði hann sýnt félaga sínum myndskeið af sér þar sem hann nauðgar 72 ára gamalli konu í Algarve árið 2005.
Saksóknari í Brunswick, Julia Meyer, staðfestir í samtali við AFP-fréttastofuna að leit standi yfir í Hannover í tengslum við rannsókn á máli Maddie McCann. Hannoversche Allgemeine Zeitung greindi fyrst frá leit lögreglu.
Fyrir tveimur dögum fjölluðu Independent og Sky um að fyrrverandi kennari hefði greint portúgölsku lögreglunni frá því að hann hefði séð Madeleine í matvörumarkaði í Portúgal fyrir þremur árum.
Að sögn hennar talaði Madeleine, sem er 17 ára ef hún er á lífi í dag, þýsku við aðra stúlku í matvörumarkaði skammt frá Albufeira í Algarve-héraði. Það sem hefði fengið hana til að halda að þetta væri Madeleine hefði verið skarð í lithimnu á hægra auga.