SMS-aðvörun til 700 Norðmanna

Vegfarendur með andlitsgrímur í belgísku hafnarborginni Antwerpen í fyrradag. Nýsmitum …
Vegfarendur með andlitsgrímur í belgísku hafnarborginni Antwerpen í fyrradag. Nýsmitum í landinu hefur fjölgað umtalsvert síðustu daga og er hlutfall þeirra á hverja 100.000 íbúa nú komið langt upp fyrir hættumörk Lýðheilsustofnunar Noregs. AFP

Heilbrigðisstofnun Noregs sendi í gær SMS-skeyti til rúmlega 700 Norðmanna sem staddir eru í Belgíu til að vara þá við því að Belgía gæti farið á rauða listann hjá norskum stjórnvöldum á miðnætti á föstudag með tilheyrandi sóttkví við komu þaðan.

Kórónuveirusmit hefur aukist töluvert í Belgíu og eru nýsmit 29,1 á hverja 100.000 íbúa samkvæmt tölfræði Sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC) en Lýðheilsustofnun Noregs miðar við 20 á hverja 100.000 svo græna ljósið skíni á viðkomandi land.

„Þess vegna sendum við nú út þessi varnaðarorð um að Belgía gæti farið á rautt,“ sagði Siri Helene Hauge, yfirlæknir stofnunarinnar, við norska ríkisútvarpið NRK í gær en í fréttatilkynningu frá stofnuninni var greint frá því að norskum stjórnvöldum hefði verið bent á smitfjölgunina í Belgíu svo þau gætu brugðist við í tíma.

Belgar segja hlutfallið 30,2

Belgíska lýðheilsustofnunin Sciensano gefur reyndar upp hærri tölu en Sóttvarnastofnun Evrópu og segir nýsmit hafa verið 30,2 á hverja 100.000 fyrir fimm dögum, 24. júlí, en dagana þar á undan, tímabilið 19. – 24. júlí, hækkaði hlutfallið úr 18,2 í 30,2 í landinu samkvæmt tölum Sciensano.

Þar með gæti Belgía fallið í flokk með Spáni og Andorra sem norsk stjórnvöld bættu á sóttkvíarlista sinn á miðnætti síðastliðinn föstudag og næst í þeirri dapurlegu röð gæti Tékkland komið, þar sem smit á hverja 100.000 íbúa síðustu 14 daga eru komin yfir mörkin og orðin 21,4 samkvæmt tölum ECDC.

Enn fremur fjölgar smitum í Austurríki og Frakklandi og nálgast það fyrrnefnda hættumörk með 19,1 smit á hverja 100.000 íbúa en í Frakklandi er hlutfallið 15, það sama og í Bretlandi.

NRK

NRKII

VG

Aftenposten

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert