Ellefu ára fangelsi fyrir að drepa górillu

Górillan Rafiki.
Górillan Rafiki. Ljósmynd/Uganda Wildlife Authority/Twitter

Karlmaður hefur verið dæmdur í ellefu ára fangelsi fyrir að hafa drepið Rafiki, eina af þekktustu fjallagórillum Úganda.

Felix Byamukama játaði að hafa brotið lög með því að hafa farið inn á verndarsvæði og drepið górilluna.

Áður hafði Byamukama greint frá því að górillan hefði ráðist á hann og hann orðið að drepa hana í sjálfsvörn, að sögn samtakanna Uganda Wildlife Authority (UWA).

Fjallagórillur eru í útrýmingarhættu og eru aðeins rúmlega eitt þúsund slíkar til í heiminum.

Byamukama játaði einnig að hafa drepið litla antílópu, sem kallast duiker. Hann sagðist hafa farið ásamt þremur öðrum í Bwindi-þjóðgarðinn til að drepa smærri dýr og að hann hefði drepið Rafiki í sjálfsvörn, að því er BBC greindi frá.

Hinir þrír sem fóru með honum hafa neitað öllum ásökunum. Þeir sitja á bak við lás og slá þar sem þeir bíða réttarhalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert