Lögreglumenn í Hannover í Þýskalandi fundu kjallara í garði sem Christian Brückner hafði til afnota. Brückner er grunaður um að hafa átt aðild að hvarfi Madeleine McCann úr hótelíbúð vorið 2007 í Portúgal.
Kjallarinn er sagður hafa verið undir garðhýsi sem stóð þar áður en er nú búið að rífa. Þýskir fjölmiðlar fylgjast vel með leitinni sem hefur staðið í nokkra daga en þýska lögreglan verst fregna. The Guardian greinir frá.
Uppgröftur í garðinum hófst fyrir tveimur dögum og eru tvær litlar gröfur notaðar í verkið. Réttarmeinafræðingar eru á svæðinu og leitarhundar eru til taks. Brückner er sagður hafa búið í húsi nálægt garðinum um skamma hríð árið 2007. Lögreglumenn hafa einnig leitað í Linden-skurðinum sem er skammt frá.
Rannsókn á hvarfi Madeleine hófst að nýju í júní þegar þýsk yfirvöld greindu frá því að Brückner væri grunaður um aðild að hvarfinu. Fram hefur komið að Þjóðverjinn, sem er 43 ára gamall, hafi sagt öðrum manni þar sem þeir sátu á bar að hann hefði átt aðild að hvarfi Madeleine. Eins hefði hann sýnt félaga sínum myndskeið af sér þar sem hann nauðgar 72 ára gamalli konu í Algarve árið 2005.
Íbúum á svæðinu er úthlutað garðspildum í garðinum og hafa þær til afnota. Íbúi sem var með afnot af garðspildu við hliðina á þeirri sem nú er verið að grafa upp sagði í samtali við þýska miðilinn Bild að kjallarinn hefði tilheyrt spildunni í „mörg ár“ og ekki hefði verið fyllt upp í hann þegar garðhýsið var rifið í lok 2007.
Lögreglan hefur lokað af svæði í kringum garðinn og sett upp skilrúm svo fjölmiðlar eða aðrir sjái ekki hvað fer fram. Þá hefur lögregla látið banna flugumferð yfir garðinn til að koma í veg fyrir að drónar eða þyrlur séu notuð til að fylgjast með uppgreftrinum.
Lögreglan hefur ekki gefið út hvað hún vonast til að finna en hefur staðfest að leitin tengist rannsókn á hvarfi Madeleine McCann. Fyrir nokkrum vikum gerði lögreglan leit í yfirgefnu verksmiðjuhúsnæði þar sem Brückner bjó um tíma og fann þúsundir mynda á myndbandsspólum og USB-lykla sem búið var að grafa í jörð. Á þeim voru meðal annars myndir af kynferðislegri misnotkun á börnum.
Hans Christian Wolters, yfirsaksóknari í Brunswick, hefur ítrekað sagt í tilkynningum og viðtölum að rannsakendur hafi sannanir fyrir því að Brückner hafi átt aðild að hvarfi McCann. Hann hefur einnig sagt að hann telji að hún sé látin en hefur neitað að veita frekari upplýsingar.
Garðurinn sem leitað er í er á dreifbýlissvæði milli Hannover og Brunswick.