Forsetafrú Brasilíu sýkt – forsetinn aftur veikur

Forsetahjónin á viðburði 29. júlí.
Forsetahjónin á viðburði 29. júlí. AFP

Michelle Bolsonaro, forsetafrú Brasilíu, hefur greinst með COVID-19 eftir að hafa farið í sýnatöku. Eiginmaður hennar, Jair Bolsonaro Brasilíuforseti, smitaðist af veirunni og hafði náð sér en er kominn á sýklalyf vegna „ótilgreindra“ veikinda.

Michelle, sem er 38 ára gömul, „er við góða heilsu og mun fylgja öllum verkferlum,“ sagði í yfirlýsingu frá skrifstofu forseta. Eiginmaður hennar hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir viðbrögð sín við faraldrinum en Brasilía er það land sem hefur farið næstverst út úr honum á eftir Bandaríkjunum.

Þakkar guði og hýdroxí­klórókíni

Forsetinn hefur líkt COVID-19 við „smá flensu“ og hefur barist fyrir því að binda endi á útgöngubönn sem ríki og borgir hafa sett á til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu faraldursins. Hann hefur, eins og Donald Trump Bandaríkjaforseti, dásamað lyfið hýdroxí­klórókín og segist hafa tekið það eftir að hann greindist sýktur.

„Í fyrsta lagi þakka ég guði, og í öðru lagi lyfinu sem mér var gefið, hýdroxí­klórókín.  Það virkaði fyrir mig,“ sagði forsetinn á Facebook Live.

Forsetinn sýnir stuðningsmönnum sínum lyfið sem hann segir hafa bjargað …
Forsetinn sýnir stuðningsmönnum sínum lyfið sem hann segir hafa bjargað honum. AFP

Kominn með sýkingu

Fimm dagar eru síðan forsetinn greindi frá því að hann væri laus við veiruna eftir tólf daga einangrun og byrjaði að sinna skyldum sínum aftur á hefðbundinn máta.

Nú hefur hins vegar orðið bakslag og er hann byrjaður að finna fyrir slappleika aftur og er kominn á sýklalyfjakúr vegna veikinda. „Ég fór í blóðprufu því ég var slappur í gær. Það kom í ljós að ég er með sýkingu,“ sagði forsetinn.

„Það fylgja því vandamál að sitja heima hjá sér í 20 daga. Lungun í mér eru þung,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert