Ný gögn í mansalsmáli Epsteins

Ghislane Maxwell var handtekin í júlí síðastliðinn fyrir að hafa …
Ghislane Maxwell var handtekin í júlí síðastliðinn fyrir að hafa átt aðild að mansalsmáli Epstein. AFP

Tölvupóstssamskipti auðjöfursins og barnaníðingsins Jeffreys Epsteins og fyrrverandi kærustu hans, Ghislane Maxwell, hafa verið gerð opinber og benda til þess að þau hafi átt samskipti árið 2015. Skýtur það skökku við vegna framburðar Maxwell, sem neitaði staðfastlega í júlí síðastliðnum að hafa átt samskipti við Epstein í yfir áratug. BBC greinir frá þessu. 

„Þú hefur ekkert gert rangt og ég myndi hvetja þig til að byrja að haga þér í samræmi við það. Farðu út og berðu höfuðið hátt, ekki þykjast vera að flýja. Farðu í veislur og taktu þér tak,“ sagði í tölvupósti frá Epstein til Maxwell 24. janúar árið 2015.

Tveir vitnisburðir ekki ratað til almennings

Ennfremur sendi Maxwell póst á Epstein þar sem hún óskaði eftir að gert væri opinbert að hún hefði ekki verið unnusta hans á tímabilinu 1999 til 2002. Lögmenn Maxwell börðust fyrir því að skjölin yrðu ekki birt og náðu að hindra birtingu tveggja vitnisburða.

Fjöldi dómsskjala málsins var gerður opinber með dómsúrskurði og var birtur í gær, fimmtudag, þar sem alríkisdómari taldi upplýsingarétt almennings vega þyngra en rétt Maxwell „til að forðast óþægindi“.

Ghislane Maxwell var handtekin 2. júlí fyrir að hafa átt aðild að mansalsmáli Jeffreys Epsteins en hún hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu. Hún óskaði eftir að vera látin laus 14. júlí gegn tryggingu en þeirri beiðni var hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert