Facebook og Google skylt að greiða fyrir fréttir

Starfsmaður Facebook á gangi í húsnæði fyrirtækisins í Kaliforníu.
Starfsmaður Facebook á gangi í húsnæði fyrirtækisins í Kaliforníu. AFP

Stjórnvöld í Ástralíu hafa svipt hulunni af nýju lagafrumvarpi sem gerir ráð fyrir því að Facebook og Google þurfi að greiða fjölmiðlum fyrir að fá að deila fréttum þeirra. Frumvarpið er hluti af átaki ástralskra stjórnvalda í að styðja við fjölmiðla sem fá sífellt minni og minni auglýsingatekjur.

Frumvarpið tekur einnig á fleiri álitaefnum og má þar nefna aðgang samfélagsmiðla að persónuupplýsingum og gagnsæi algríma sem miðlarnir nota sem meðal annars stjórna því hvaða leitarniðurstöður fólk fær upp og hvaða færslur birtast hvaða notendum.

„Framtíð ástralskra fjölmiðla er undir,“ sagði fjármálaráðherrann Josh Frydenberg á blaðamannafundi á fimmtudag þar sem frumvarpið var kynnt. Sagði hann að frumvarpið yrði lagt fram á þingi innan fárra vikna og að í því væri gert ráð fyrir heimild til að sekta brotlega aðila um hundrað milljónir dala.

Til að byrja með mun löggjöfin einungis ná yfir Facebook og Google en hún mun á endanum taka til allra samfélagsmiðla. Google var ekki lengi að senda frá sér yfirlýsingu þar sem „miklum vonbrigðum“ var lýst yfir.

Önnur ríki hafa reynt að fara svipaðar leiðir til að gera samfélagsmiðlum skylt að greiða fyrir fréttir sem þeir deila en það hefur gengið misvel. Það sem Ástralía ætlar að gera öðruvísi en þau ríki er að nota samkeppnisrétt en ekki höfundarrétt til grundvallar skyldunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert