Microsoft hefur gert hlé á viðræðum við kínverska fyrirtækið Bytedance um möguleg kaup á smáforriti þeirra, TikTok, eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti lét í ljós að hann væri andsnúinn slíkum viðskiptum.
Þetta hefur dagblaðið Wall Street Journal eftir heimildarfólki sem kunnugt er málavöxtum.
New York Times greindi í gær frá viðræðunum og segir í umfjöllun þess blaðs að með sölunni reyni Bytedance að bjarga verðmæti fyrirtækisins og koma í veg fyrir að bandarísk stjórnvöld leggi bann við notkun forritsins þar í landi.
Samkvæmt heimildum Wall Street Journal knúðu ummæli Trumps Bytedance til viðbragða, en fyrirtækið á meðal annars að hafa samþykkt að bæta við allt að tíu þúsund störfum í Bandaríkjunum á næstu þremur árum.
ByteDance hefur einnig skoðað að fá inn aðra fjárfesta, sem ekki eru kínverskir, á borð við Sequoia Capital, SoftBank og General Atlantic, sem gætu keypt meirihlutaeign í félaginu, að því er New York Times hefur eftir heimildarmönnum sínum.
Microsoft hefur ekki viljað tjá sig um orðróm um viðræðurnar. Frá því nýr forstjóri, Satya Nadella, tók við taumum tæknirisans árið 2014 hefur félagið tekið yfir þrjú stór fyrirtæki, tölvuleikinn Minecraft, samfélagsmiðilinn LinkedIn og Github, þjónustu fyrir hugbúnaðarframleiðendur, en fyrir félögin þrjú hefur Microsoft greitt meira en 35 ma. Bandaríkjadala (4.750 ma. kr.).