Gerir hlé á viðræðum vegna andstöðu Trumps

Microsoft hef­ur ekki viljað tjá sig um orðróm­inn.
Microsoft hef­ur ekki viljað tjá sig um orðróm­inn. AFP

Microsoft hefur gert hlé á viðræðum við kínverska fyrirtækið Bytedance um möguleg kaup á smáforriti þeirra, TikTok, eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti lét í ljós að hann væri andsnúinn slíkum viðskiptum.

Þetta hefur dagblaðið Wall Street Journal eftir heimildarfólki sem kunnugt er málavöxtum.

New York Times grein­di í gær frá viðræðunum og seg­ir í umfjöllun þess blaðs að með söl­unni reyni Bytedance að bjarga verðmæti fyr­ir­tæk­is­ins og koma í veg fyr­ir að banda­rísk stjórn­völd leggi bann við notk­un for­rits­ins þar í landi.

Samkvæmt heimildum Wall Street Journal knúðu ummæli Trumps Bytedance til viðbragða, en fyrirtækið á meðal annars að hafa samþykkt að bæta við allt að tíu þúsund störfum í Bandaríkjunum á næstu þremur árum.

ByteD­ance hefur einnig skoðað að fá inn aðra fjár­festa, sem ekki eru kín­versk­ir, á borð við Sequoia Capital, Soft­Bank og Gener­al Atlantic, sem gætu keypt meiri­hluta­eign í fé­lag­inu, að því er New York Times hef­ur eft­ir heim­ild­ar­mönn­um sín­um.

Microsoft hef­ur ekki viljað tjá sig um orðróm­ um viðræðurnar. Frá því nýr for­stjóri, Satya Nadella, tók við taumum tæknirisans árið 2014 hef­ur fé­lagið tekið yfir þrjú stór fyr­ir­tæki, tölvu­leik­inn Minecraft, sam­fé­lags­miðil­inn Lin­ked­In og Git­hub, þjón­ustu fyr­ir hug­búnaðarfram­leiðend­ur, en fyr­ir fé­lög­in þrjú hef­ur Microsoft greitt meira en 35 ma. Banda­ríkja­dala (4.750 ma. kr.).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert