Talið er að um 17.000 manns hafi komið saman í Berlín, höfuðborg Þýskalands, í dag til að mótmæla sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda.
Í hópi mótmælenda voru hópar öfgahægrimanna og samsæriskenningasmiðir en á skiltum mátti sjá ýmsar kenningar um uppruna veirunnar og staðhæfingar um að sóttvarnaaðgerðir snerust í raun ekki um sóttvarnir heldur að hafa stjórn á lífi fólks. Þarf því varla að koma á óvart að mótmælendur hafi ekki skeytt um að framfylgja reglunum heldur staðið þétt saman, flestir grímulausir. Á einu skilti sem sjá mátti í göngunni var grímuskyldu líkt við gulu stjörnuna sem gyðingar voru neyddir til að bera í Þýskalandi nasismans.
Þjóðverjar hafa farið betur út úr kórónuveirufaraldrinum en margar aðrar Evrópuþjóðir. Yfirvöld hafa þó áhyggjur af því að almenningur sé að verða værukærari á sama tíma og tilfellum hefur fjölgað á nýjan leik. Yfir 900 tilfelli kórónuveirunnar greindust í Þýskalandi í gær samanborið við 580 fyrir viku. Þá létust sjö af völdum veirunnar í gær.