Hinn góðkunni leikari Tom Cruise hefur ekki ráðist á garðana þar sem þeir eru lægstir við undirbúning sjöundu Mission Impossible-myndarinnar sem nú er á leið í framleiðslu og ráðgert er að frumsýna í nóvember 2022.
Eftir að norsk stjórnvöld bænheyrðu hann um að fá að koma sóttkvíarlaust með 200 manna lið frá Bandaríkjunum til Noregs nú síðar í ágúst til að taka upp atriði fyrir myndina í Mæri og Raumsdal, og ef til vill eitthvað í Bergen einnig, sneri Cruise sér að Pólverjum.
Beiðni hans þar í landi er hins vegar öllu umdeildari en að fá að koma í heimsókn án þess að byrja í sóttkví því Cruise vill gjarnan fá að sprengja í loft upp 111 ára gamla hengibrú yfir stöðuvatn í bænum Pilchowice sem er rúmlega 100 kílómetra vestan við borgina Kraków.
Er nokkur urgur í íbúum bæjarins sem hafa brugðist ókvæða við beiðni Cruise enda brúin að þeirra mati þjóðminjar þótt hún finnist ekki á opinberum pólskum skrám yfir slíkt. Brúnni var lokað árið 2016 en fær þó að hanga áfram á sínum stað, nema Cruise komi fram vilja sínum. Brúin í Pilchowice er reyndar áætlun B hjá leikaranum og öðrum aðstandendum myndarinnar. Áður reyndu þeir að fá leyfi til að sprengja brú í Sviss en þarlend yfirvöld þverneituðu.
Pólsk yfirvöld taka reyndar ekki málstað íbúa Pilchowice í brúarmálinu. „Brúin er ónýt og hefur ekkert menningarlegt eða sögulegt gildi,“ segir Pawel Lewandowski, aðstoðarmenningarmálaráðherra Póllands, við dagblaðið Wirualna Polska, ekki séu allir gamlir hlutir sjálfkrafa minnisvarðar.
Segir Lewandowski auk þess að Ameríkanarnir hafi lofað að tjasla brúnni saman aftur eftir sprenginguna og kvikmyndin eigi enn fremur eftir að verða Póllandi til framdráttar sem landkynning, til dæmis muni sprenging brúarinnar verða þungamiðjan í stiklu (e. trailer) myndarinnar.
Örlög brúarinnar í Pilchowice eru umdeild, á Twitter ritar Adam Williams: „Hve útblásið getur sjálf þitt verið svo þú látir þér koma í hug að myndin þín sé mikilvægari en sögulegur minnisvarði sem ekkert mun koma í staðinn fyrir? Notaðu bara CGI [computer generated imagery, tölvugert myndefni] eins og gert er í nánast öllum öðrum myndum þegar þörf er á að sprengja upp sögufræga staði.“
Tökurnar í Póllandi eru ráðgerðar í apríl á næsta ári svo einhver tími er til stefnu að karpa um brúna í Pilchowice.
Norska ríkisútvarpið NRK veltir því hins vegar fyrir sér hvort nokkur hætta sé á að Cruise vilji sprengja Kylling-brúna á Raumabanen, eina þekktustu járnbrautarbrú Noregs, sem byggð var árið 1923, í loft upp þegar tökurnar hefjast í Mæri og Raumsdal á haustdögum.